Það kostar allt að 200.000 íslenskra króna á mánuði að setja barnið sitt í dagvistun í Sviss. Þetta er ein ástæða þess að treglega gengur að koma á jafnrétti kynjanna á svissneskum vinnumarkaði. Þetta segir Ólöf Steinunnardóttir stjórnmálafræðingur, sem býr í Lausanne í Sviss, í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1. Konur þar í landi leggja niður vinnu í dag til þess að mótmæla heimilisofbeldi og kynbundinni mismunun.

Konur í Sviss efndu síðast til kvennaverkfalls árið 1991. Þá fyrst fengu allar konur í Sviss kosningarétt, en það var svo seint sem árið 1971 sem flestar svissneskar konur fengu kosningarétt.

Ólöf segir að laun kvenna séu mun lægri en laun karla í Sviss og þar að auki geti verið erfitt að fá pláss fyrir börn á leikskóla eða dagvistun. Dæmi séu um að fólk greiði jafnvirði allt að 200.000 íslenskra króna fyrir pláss í dagvistun.

Ólöf býst við að þátttaka kvenna í fjöldafundum sem haldnir verða víða um Sviss verði góð. Konur eru ekki aðeins að mótmæla skörðum hlut á vinnumarkaði, þær mótmæla einnig heimilis- og kynferðisofbeldi, en kannanir hafa leitt í ljós að fimmta hver kona telur sig hafa orðið fyrir kynferðilegu ofbeldi eða áreitni.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ólöfu í spilaranum hér að ofan.