Dagný Brynjarsdóttir segir Amandine Henry, landsliðskonu Frakklands og samherja sinn hjá Portland, hafa viðurkennt að hafa haft rangt við þegar hún fékk vítaspyrnuna sem sigurmark Frakklands kom úr gegn Íslandi á EM í sumar.

Viðtalið við Dagnýju má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

Frakkland vann leikinn gegn Íslandi á EM í Hollandi með einu marki gegn engu. Markið kom úr vítaspyrnu sem var dæmt á brot Elínar Mettu Jensen á Amandine Henry. Mörgum þótti dómurinn harður, eða hreinlega rangur, og var Dagný þeirra á meðal

Dagný gagnrýndi Henry í viðtali eftir leikinn og svo ræddu þær þetta þegar þær hittust aftur hjá Portland Thorns.

„Við ræddum leikinn þegar við hittumst aftur og föðmuðumst þá og þökkuðum hvorri annarri fyrir leikinn. Þetta sat í manni á meðan á EM stóð en svo kom ég út og hitti hana og þá er þetta bara búið. Svona er fótboltaleikurinn.
- Hún hefur ekkert fengið fregnir af því að þú hefðir aðeins látið hana heyra það í viðtali eftir leik?
- Jú,jú, hún vissi allt um það enda var það fyrsta sem ég spurði hana hvort hún hefði verið að dýfa sér í teignum og hún viðurkenndi það. Þá var ég ánægð. Ég var ekki að bulla í viðtalinu og ég vissi það alveg. Ég hefði ekki sagt þetta ef ég hefði ekki vitað þetta. En hún viðurkenndi þetta allavega sem ég var ánægð með.“ 

Ekki búin að ákveða framhaldið

Dagný varð bandarískur meistari með Portland í liðinni viku og hefur hún nú unnið meistaratitla í þremur löndum. Auk Bandaríkjanna varð hún meistari í Þýskalandi með Bayern München og hér á Íslandi með Val.

Samningur hennar er útrunninn og framhaldið óvíst.

„Þeir vilja halda mér en ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gera. Ég veit ekki hvort ég ætla að spila í Bandaríkjunum eða  koma til Evrópu. Ég ætla bara að fókusa á þessa tvo landsleiki og koma heim í nóvember og hugsa hvað ég ætla að gera.“

Mæta einu besta liði í heimi á föstudag

Landsleikirnir tveir sem Dagný talar um eru leikir í forkeppni HM 2019; sá fyrri gegn Þýskalandi á föstudag og sá síðari gegn Tékklandi á þriðjudag, báðir leiknir ytra.

Þýskaland hefur um áratuga skeið verið eitt sterkasta lið heims en eftir 6 Evrópumeistaratitla í röð missteig liðið sig á EM í sumar.

„Þetta er virkilega krefjandi verkefni, þær eru náttúrulega eitt besta lið í heimi. Við erum minnimáttar og það er mikilvægt að við allar spilum okkar besta leik og þá er allt hægt í fótbolta. Auðvitað förum við í alla leiki til að vinna og vonandi gengur það eftir.“

„Það væri frábært að fá eitt stig og kolklikkað að fá þrjú stig en við höfum aldrei farið á HM og þetta er draumur sem við viljum ná. Frábært að hjá að karlarnir eru búnir að ná því núna og það gefur manni aukna trú og von; fyrst þeir gátu það, af hverju ættum við ekki að geta það?“

Leikur Íslands og Þýskalands er á föstudag kl. 14 og er í beinni útsendingu RÚV. 

Leikur Íslands og Tékklands er svo á þriðjudag kl. 16, sömuleiðis beint á RÚV.