Forystumenn stjórnmálaflokkanna byrjuðu að tala saman í gær um hvernig hægt væri að leysa pattstöðuna á Alþingi. Viðræður þeirra í gærkvöld og í morgun urðu til þess að umræðu um þriðja orkupakkann var frestað á Alþingi í morgun og önnur mál tekin fram fyrir. Viðræður eru hafnar um hvernig þingstörfunum skuli háttað á Alþingi á næstunni en viðmælendur fréttastofu leggja áherslu á að ekkert samkomulag sé í höfn.
„Menn voru aðeins í samskiptum í gærkvöldi og í morgun. Menn sáu ástæðu til að funda, forystumenn flokkanna,“ segir Steingrímur J. Sigfússon. „Ég kallaði þarafleiðandi í formenn þingflokkanna og gerði þeim grein fyrir því að það væri viðleitni til þess að reyna að tala saman. Þá var ákveðið að hverfa aðeins frá dagskránni, breyta röð á dagskrá, og nýta tímann til að tala um þau 35 mál sem bíða.“
Steingrímur segist ánægður með að ákveðið hafi verið að sóa tímanum ekki til einskis. Hann sagði umræðuna um orkupakkann bíða meðan rætt væri um framhaldið. „Ég get ekkert sagt um það,” sagði Steingrímur aðspurður hvort að ákveðið hefði verið að afgreiða orkupakkann á þessu þingi.
Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar, segir Steingrímur. „Þetta er bara tímabundið samkomulag, eiginlega fyrir daginn í dag, að búa til gott andrúmsloft fyrir þau samtöl sem eiga sér stað. Það eru allir óbundnir af því ef þau skila ekki árangri.“
„Mér líst ágætlega á það. Við höfum sagt frá upphafi að við séum til í að hleypa öðrum málum fram fyrir,” segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, um þá ákvörðun að taka önnur mál á dagskrá og fresta frekari umræðu um þriðja orkupakkann.
„Það eru að fara af stað einhverjar viðræður. Það er alltaf gott.” Hann segir að samstaða hafi verið meðal formanna flokkanna um að breyta dagskránni. „Nú fer af stað vinna við að greina þessi mál sem út af standa, eins og hefð er fyrir við þinglok. Ég geri ráð fyrir að þingflokksformennirnir hefji þá vinnu fljótlega.“
Sigmundur sagði að oft leystust mál fljótlega þótt svo útlit hafi verið fyrir langa umræðu. Hann segir mikla umræðu Miðflokksmanna um þriðja orkupakkann hafa orðið til þess að fleiri sjónarhorn og atriði hafi komið fram.
„Það er mikilvægt að við náum að afgreiða þessi mál sem eru á dagskránni þannig að það er gott að þetta samtal er að eiga sér stað og við virðumst vera að fikra okkur áfram í að ná niðurstöðu í þessu máli,“ segir Halldóra Mogensen, varaformaður þingflokks Pírata.
Hún segir fullkomlega rökrétt að skera á hnútinn í smá stund meðan viðræður fari fram milli flokkanna um hvernig störfum Alþingis skuli háttað á næstunni. „Það er samkomulag um að halda samtalinu áfram. Svo sjáum við hver lendingin verður.“
„Það var samkomulag um það að við myndum halda áfram að ræða á þessum nótum, að við myndum ráða samkomulagi um pakkana sem hafa beðið í langan tíma. Þá yrði orkupakkinn settur aftur fyrir en á þessu þingi og afgreiddur. Við erum bara í fyrstu sporunum en það lofar góðu að fólk tali saman.”
Orðið við tillögu stjórnarandstöðunnar. „Ég lít þannig á að allir átti sig á því að svona hlutir verða ekki leystir nema með samkomulagi. Hvar upphafið að því samkomulagi á sér stað skiptir ekki máli.