„Ha, meðalmaðurinn sjálfur! 13,4 sentimetrar, það er bara alveg í miðjunni á meðaltalinu,“ er skrifað utan á bókina um Daða eftir kynfræðinginn Siggu Dögg. Bókin er sjálfstætt framhald sögunnar af Veru kynveru sem kom út á síðasta ári en frásögnin byggir á algengum spurningum úr umræðum drengja úr kynfræðslu Siggu Daggar.
Daði er ungur maður sem glímir við ástarsorg, brotna sjálfsmynd og óslökkvandi greddu. Hann þykist vera svalur með vinum sínum og sýnir sig fyrir framan stelpuna sem hann er skotinn í en undir yfirborðinu krauma tilfinningar sem hann á í mestu basli með. Hann heldur rúnkdagbók en roðnar yfir kynfræðslukvöldum móður sinnar. Egill Helgason hitti Siggu Dögg og ræddi við hana um Daða.
Sigga Dögg segist nokkuð viss um að flestir ungir menn þekki töluna sem birtist þeim á bókarkápunni en hún vísar í typpalengd Daða. „Hann dó aðeins inni í sér þegar hann áttaði sig á að hann væri í meðaltali en þetta er meðalstærð typpa í reisn,“ segir Sigga Dögg. Daði er sem fyrr segir ungur maður en það kemur hvorki fram í bókinni hve gamall hann er og hvernig hann lítur út. Tilgangurinn með sköpun hans var samkvæmt höfundi að gefa strákum einhvern til að spegla sig í og tala um. „Það er erfitt að tala um sig en þú getur talað um Daða og vini hans þegar þú ert kannski í raun að tala um þig og þína vini,“ segir höfundurinn og bætir því við að það geti hreinlega verið snúið að vera ungur drengur í dag. „Þeir vita ekki alveg í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. Ég er að vona að hér hafi þeir handrit að samtali um til dæmis að fá samþykki, skilja hvar mörkin liggja og hvernig þeir eigi að taka við leiðbeiningum. Hvernig má ég tala þegar ég er í bullandi tilfinningakremju? Við hvern má ég tala og hvernig orð nota ég?“
Þegar Sigga Dögg gaf út bókina um Veru kynnti hún Daða fyrst til sögunnar en hann er kærasti Veru um tíma. Höfundurinn áttaði sig fljótt á að Daði vakti rífandi lukku á meðal drengja. „Hann er rosalega mikill kall. Þegar ég les upp í skólum finnst strákunum Daði vera meistari, þeir segja það,“ segir Sigga Dögg kímin. „Ég fann þegar ég skrifaði Veru að það vantaði rými sem væri bara fyrir strákana. Spurningar þeirra í tímum eru allt öðruvísi en stelpuspurningar.“
Sigga Dögg segir að þrátt fyrir að bókin sé berorð eigi hún alveg erindi í jólapakkann til ungra drengja. „Ég held það fari enginn á hliðina, það eru engar myndir eða neitt. Við viljum öll betri heim með því að opna umræðuna, gera hana fordómalausari og skila skömminni,“ segir hún að lokum.
Rætt var við Siggu Dögg kynfræðing í Kiljunni.