Risavaxin skemmtiferðaskip verða æ algengari við hafnir landsins og koma þeirra fer ekki fram hjá íbúum smærri byggðalaga. Fjölmargir farþegar koma oft í land til að skoða mannlífið og umhverfið og þykir mörgum nóg um áganginn. Aðrir deyja þó ekki ráðalausir og bjóða fólki að svala gægjuþörfinni.

Skemmtiferðaskipum sem hingað koma fjölgar með ári hverju og á Ísafirði verður slegið met í ár með meira en 110 skipum. Árið 2006 komu 22 skip til Ísafjarðar og hefur fjöldinn því fimmfaldast á rúmum áratug. Ísfirðingum þykir mörgum nóg um enda eru farþegarnir áberandi þegar þeir koma í land. Margir þeirra eru mjög forvitnir um umhverfið og sést hefur til þeirra guða á glugga á gömlum fallegum húsum. Sumir hafa meira að segja tekið í húninn og gengið inn. Ætla mætti að þeir haldi að þeir séu komnir á safn eða að á gangi í leikmynd. Björg Elínar Sveinbjörnsdóttir ákvað upp á sitt einsdæmi að ýta undir þessar hugmyndir ferðafólksins og býður fólki að gægjast inn á heimili sitt gegn vægu gjaldi.

„Það er bara til góðs, þá geta fleiri nýtt sér það,“ segir Björg um þá staðreynd að uppákoman hafi vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. „Ég setti gluggatjöldin hinum megin við gluggann á húsinu og býð fólki að greiða fyrir að gægjast inn um eldhúsgluggann hjá mér,“ segir Björg en tvær evrur, tvö pund eða tvo dollara kostar að svala forvitninni. „Það sér uppstillta mynd. Hér er nýbökuð skúffukaka og ísköld mjólk á borðum. Það má svo bara horfa, ekki snerta eða fá sér. Það gæti alveg séð mig ganga frá eða slíkt en þetta er aðallega það sem fólk sér,“ segir Björg.

„Það er bara til þess að svala þessari gægjuþörf, fínt að fólk gangist bara við því. Þegar maður er á ferðalagi þá langar mann að kafa ofan í kúltúrinn og vita hvað fólk er að gera heima hjá sér. Maður kemst ekki svo auðveldlega að því,“ segir Björg. Hún vill meina að þetta sé tilvalin leið fyrir alla þá sem búa við árfarveg túristastraumsins. „Það er svona smá lækur sem rennur til mín en auðvitað er farvegurinn þarna niðri í bæ, niðri á Eyrinni. Þar er þetta talsvert vandamál. Bæklingum hefur verið dreift til farþega skipanna með leiðbeiningum og þeir beðnir um að gera þetta ekki,“ segir Björg en nefnir að kannski sé þetta fínasta lausn fyrir alla þá sem vilja taka þátt í ferðaþjónustunni og fá eitthvað fyrir sinn snúð.  
 
Björg segir að vissulega væri það meira spennandi að fjölskyldan sæti þarna að snæðingi og ferðafólk gæti fylgst með daglegu amstri fjölskyldunnar. Þá þyrfti hún þó vitanlega að hækka gjaldið. Hún sé þó ekki endilega að hugsa um innkomuna enn sem komið er. „Það á nú bara að fara inn á heimilisbókhaldið en það er vissulega góður punktur hjá þér,“ segir Björg þegar hún er innt eftir því hvort fjölskyldan ætli sér mögulega að safna sér fyrir ferðalagi á sams konar skemmtiferðaskipi og hennar helstu viðskiptavinir. Björg segir að margir Ísfirðingar séu orðnir þreyttir á ágangi farþega skemmtiferðaskipanna, þar sem þeir gægjast inn á heimilin og eigi það til að ganga hægt um bæinn og vaða út á miðja götu. „En auðvitað er fólk alltaf ánægt með ferðamenn. Fólk er bara fólk og fólk á skemmtiferðaskipum er ekkert öðruvísi en annað fólk, það er bara fjöldinn sko,“ segir Björg að lokum.