Menn létu sverðin tala á Írskum dögum á Akranesi, sem lauk í dag. Aðrir létu helgina líða úr sér í heitri laug. Írskir dagar voru haldnir á Akranesi um helgina. Veðrið lék við gesti hátíðarinnar alla helgina. Tjaldstæðið var fullt og komust ekki allir að sem vildu, vegna þess að það þurfti að vísa fólki frá.
Í gærkvöldi var Lopapeysu-ballið haldið, eins og hefð er orðin fyrir. Þangað var líka uppselt. Skipuleggjendur eru að vonum ánægðir með helgina.
„Þetta er búið að vera hreinlega mikil gleði og allir að fara héðan með sól í hjarta enda búið að vera gaman hér á Flórída-Skaga,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi. Hann segir að allt hafi farið vel fram. „Við höfum þær fregnir að þetta hafi gengið bara vel frá lögreglu og þeim sem hafa staðið fyrir skemmtanahaldi. Þetta er bara búið að vera virkilega skemmtilegt.“
Í dag hélt dagskráin áfram. Á túninu við byggðasafnið sýndu Væringjar skylmingar. Rúnar Páll Benediktsson, aðalþjálfari Væringja, segir auðvelt að kenna fólki að skylmast. Bardagalistin sem skylmingafélagið Væringjar iðka eru sögulegar evrópskar skylmingar.
Þeir hátíðargestir sem vildu ekki sleppa takinu af veðurblíðunni brugðu sér í Guðlaugu í dag. Börnin skemmtu sér vel í góða veðrinu og sögðu fréttamönnum að fallturninn og brekkusöngurinn hafi verið með því skemmtilegra á írskum dögum.
Bæjarstjórinn tekur sjálfur þátt í að skipuleggja brekkusönginn á írskum dögum og hefur gert það ásamt félögum sínum undanfarin ár. Hann átti ekki í neinum vandræðum með að velja hápunkt helgarinnar fyrir sig: „Fyrir mér var það nú brekkusöngurinn. En ég er nú svolítið eigingjarn þegar ég segi þetta því ég er einn af þeim sem skipulegg það svona prívat. En ég held ég verði bara að segja það,“ segir Sævar Freyr.