Brúin yfir Núpsvötn á Þjóðvegi 1 stenst ekki nútíma kröfur til öryggis á þjóðvegum. Þetta segir Ólafur Guðmundsson, umferðaröryggissérfræðingur. Hann segir brúna vera ein margra brúa í þjóðvegakerfinu á Íslandi sem eru börn síns tíma.

„Þetta er ekki samkvæmt staðli og ekki eins og við gerum í dag,“ segir Ólafur sem skoðaði brúna og bráðabirgðaviðgerð Vegagerðarinnar í dag. „Þessi brú er byggð um 1975 eftir þeim viðmiðum sem þá voru en þetta stenst engan veginn þær kröfur sem við gerum í dag.“

Þrír létust og fjórir eru alvarlega slasaðir eftir að jeppabifreið sem fólkið var farþegar í fór fram af brúnni yfir Núpsvötn í gærmorgun. Vegriðið á brúnni gaf sig með þeim afleiðingum að bíllinn féll um átta metra niður á áraurana undir brúnni.

Ólafur segir vegriðið á brúnni vera of lágt, stoðirnar séu ekki nógu góðar og að brúargólfið hafi svo verið hækkað í seinni tíð svo vegriðið sé jafnvel lægra en það var upphaflega. Vegriðið sé þess vegna allt of veikt til að halda bílum.

Margar brýr varasamar

Tilgangur vegriða sé að koma í veg fyrir að bílar fari fram af brúm. Til séu staðlar um vegrið en vegriðin á brúnni yfir Núpsvötn eru fjarri því að ná lægsta staðli. Ólafur segir verulegar líkur á því að afstýra hefði mátt svo alvarlegu slysi ef vegrið brúarinnar stæðust nútímakröfur.

„Allar nýrri brýr sem byggðar hafa verið hér á landi eru komnar með vegrið sem standast þessar kröfur,“ segir Ólafur sem hefur áratuga reynslu af úttekt og eftirliti með umferðaröryggismálum bæði hér á Íslandi og erlendis. „En þessi brú gerir það ekki. Þetta er vandamál hringinn í kringum landið.“

„Margar af þessum stóru brúm okkar eru ekki að halda stórum bílum, hvað þá rútum. Ég get nefnt til dæmis Ölfusá Þjórsá, Jökulsá á Breiðamerkursandi og fullt af þessum einbreiðu brúm hérna um allt land eru ekki með vegriðum sem halda svona stórum bílum.“

Ábyrgðin er stjórnvalda og okkar allra

Spurður hvort stjórnvöldum hafi verið bent á þennan galla í öryggismálum vegakerfisins segir Ólafur að á þetta hafi verið bent í hátt í þrjú ár. „Ég hef verið að nefna þetta við núverandi og fyrrverandi vegamálastjóra, tvo ráðherra, töluvert í fjölmiðlum.“ segir hann. Fara þurfi í stórátak til að útrýma brúarhandriðum þar sem vitað er að bíll má ekki fara fram af.

„Við vitum hvaða staðir þetta eru, þeir eru tólf til fimmtán brýr sem við þurfum virkilega að fara í. Það kostar peninga en við losnum þá við afleiðingar eins og við horfðum upp á hér í gær.“

Ólafur segir ábyrgðina vera hjá stjórnvöldum og öllum landsmönnum að láta þetta ástand viðgangast. „Þetta snýst náttúrlega um peninga og fjárveitingar. Vegagerðin hefur ekki haft neitt sérstakt fjármagn í að láta laga þessar brýr og þess vegna er verið að berjast fyrir stórátaki í vegagerð, ekki bara sem varðar brýr heldur alla þessu veiku kafla í vegakerfinu okkar.“

Spurður hvort hann óttist fleiri slys vegna vanbúinna brúa á þjóðvegum segir Ólafur hafa sérstakar áhyggjur af brúm og jarðgöngum. „Ég er búinn að vera með hnút í maganum, bæði út af þessum brúm og jarðgöngunum okkar. Þetta eru þessi tvö stórátök sem við þurfum að fara í: Það er að koma þessum brúm og jarðgöngunum okkar til nútímans.“