Ein elsta steinbrú landsins, brúin yfir Bláskeggsá í Hvalfirði, hefur verið endurbætt og opnuð á ný. Brúin er friðlýst og þykir eitt merkilegasta mannvirki sinnar tegundar hér á landi.
Bláskeggsá rennur vestan við Þyril í norðanverðum Hvalfirði. Áin dregur nafn sitt af Þorvaldi Bláskeggi, bónda á Sandi, sem getið er um í Harðar sögu og Hólmverja. Brúin yfir Bláskeggsá var byggð árið 1907 og var hún fyrsta steinsteypta brúin á Íslandi utan Reykjavíkur. Þar til brúin kom var þarna torleiði nokkuð og tilkoma hennar því mikil bylting í samgöngumálum á svæðinu á sínum tíma, en fyrir hundrað árum voru menn reyndar ekki farnir að velta fyrir sér göngum undir Hvalfjörð.
Bláskeggsárbrúin var friðlýst árið 1978 en á hundrað ára afmæli hennar var ákveðið að ráðast í viðgerð á henni og lauk því verki nú á vordögum. Endurbæturnar voru samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Fornleifaverndar ríkisins og Hvalfjarðarsveitar.