Forstöðumaður greiningardeildar Capacent segir að þróun síðustu ára í flugrekstri hafi verið hrollvekjandi. Almennt bruðl og partíhald hafi svifið yfir vötnum, rétt eins og fyrir hrun. Mál WOW air veki spurningar um útlánastefnu Arion banka. Bankinn segist í yfirlýsingu ekki verða fyrir verulegum beinum áhrifum vegna gjaldþrots WOW, en svarar því ekki hversu tapið er mikið.

Bankinn kynnti nýja hagspá í gær þar sem staða WOW air var talinn stærsti óvissuþátturinn í íslensku efnahagslífi og kynnti ítarlega hverjar afleiðingar þess yrðu ef WOW færi í þrot annars vegar, og ef flugfélagið héldi velli hins vegar.

Forstöðumaður greiningardeildar Capacent segir að samkvæmt því sem þegar er fram komið í fjölmiðlum hafi Arion banki lánað félaginu að minnsta kosti 1,6 milljarða. Þó gæti upphæðin verið hærri. „Væntanlega hafa þeir fært einhverja varúð á móti og það er búið þannig um hnútana eftir hrun að bankarnir geta tekið á sig margfalt stærri högg,“ segir Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent. Um skammtímahögg sé að ræða fyrir Arion.

Hrollvekjandi þróun sem minni á góðærið

Snorri segir að staða WOW air ætti ekki að koma á óvart, miðað við það sem á undan er gengið. „Það var margt sem var mjög hrollvekjandi við þróun í flugrekstri síðustu ár og minnti um margt á sömu einkenni og við sáum fyrir hrun,“ segir Snorri.

„Rekstur fór versnandi ár frá ári. Menn fóru í útrás og ofurvöxt þrátt fyrir að samkeppnisstaðan hafi verið lök. Við sáum að það var innbyrðis samkeppni milli flugfélaga sem var ekki á viðskiptalegum forsendum. Á sama tíma voru launahækkanir langt umfram rekstrarforsendur og það var, hvað eigum við að segja, almennt bruðl og partíhald. Einhvern tímann tekur allt enda.“

Þá sé fall WOW enn eitt áfallið fyrir Arion, rétt eins og Primera air og United Silicon. „Þetta náttúrulega vekur upp spurningar um útlánastefnu bankans og útlánaeftirlit,“ segir Snorri. Hann telur líklegt að bankinn taki stefnu sína til skoðunnar.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir upplýsingafulltrúi Arion hins vegar að útlánastefnan verði ekki tekin sérstaklega til endurskoðunar vegna falls WOW.  „Starfsfólk Arion banka hefur fylgst náið með þróun mála hjá WOW air undanfarna mánuði og kemur því niðurstaðan ekki alfarið á óvart þó allir hefðu óskað þess að málalok yrðu önnur,“ segir líka í svari bankans.