Einkasýning myndlistarmannsins Atla Más Indriðasonar stendur nú yfir í Listasal Mosfellsbæjar en sýningin er upptaktur að List án landamæra sem fram fer síðar á árinu.


Inga Björg Margrétar- og Bjarnadóttir skrifar:

Í Listasal Mosfellsbæjar stendur nú yfir einkasýning Atla Más Indriðasonar. Sýningin er upptaktur að hátíðinni List án Landamæra sem fram fer í október síðar á þessu ári, en Atli Már var valinn listamaður hátíðarinnar í ár.
Atli Már hefur sterkt höfundareinkenni — tvívíðar fígúrur, bjarta og mikla liti og sterkar vísanir í dægurmenningu. Myndflöturinn er jafnan þakinn þessum litríku fígúrum sem eru auðþekkjanlegar úr kvikmyndum, menningu teiknimyndasagna og ofurhetjuheima. Þaðan kemur einmitt myndheimurinn sem dreginn er fram á þessari annarri einkasýningu Atla Más, úr dægurmenningu. Verkin eiga það sameiginlegt að fjalla um ofurhetjur og leika hinir sívinsælu ævintýraheimar Marvel og DC Comics því stórt hlutverk. Á sýningunni eru bæði teikningar og skúlptúrar sem hafa skýrar vísanir í þessa heima — og þrátt fyrir hálfgerða einsleitni fígúranna verður ekki um villst hver eru hér á ferð.

Kómískar vangaveltur

Þessi einkenni sem við þekkjum úr sameiginlegu minni okkar, menningarminni, verða skemmtilega skýr þegar þeim er miðlað með naívum stíl Atla Más. Við þurfum ekki að þekkja eina einustu ofurhetjukvikmynd til að sjá einkenni ofurmennanna — en myndin skekkist, teygist og tosast í meðförum Atla Más. Því í verkunum sjást ofurhetjur þvert á heima, sömu ofurhetjunum bregður oft fyrir í sama verki, þ.e. fígúrurnar hafa ólík persónueinkenni en ofurhetjurnar eru samt þær sömu, og í öðrum verkum sjást ólíkar ofurhetjur, þvert á heima, með áþekka eiginleika. Allir þessir árekstrar valda kómískum vangaveltum, um minna ritstýrðan ofurhetjuheim í hliðarveruleika, þar sem teymi ofurhetja passa illa saman og allir hafa sömu eiginleikana. Hvernig ójafnvægi skapast í heimi ofurhetjanna þar sem allir vilja vera Súpermann? Þegar allir eru ógeðslega sterkir en enginn hefur snerpuna? Allir standa vaktina gegn illmennum í háloftunum en enginn á sjó? 

Brú milli veruleika

Listamaðurinn hefur mikinn áhuga á ofurhetjumenningu og eru verkin að sögn sýningarstjóra framlenging á þessum heimum — nokkurs konar brú á milli veruleika listamannsins og þessara ævintýraheima. Skúlptúrarnir eru framlenging, hálfgerðir leikmunir, skapaðir úr því sem fellur til þar sem hversdagslegir hlutir breytast í vopn í augum þess sem trúir. Þá teiknar Atli Már sjálfan sig og vini sína í hlutverkum ofurhetjanna og þannig byggir hann bæði brú yfir í heim ofurhetjanna, byggir og afbyggir tengslin á milli, setur þau í hversdagslegt samhengi og mátar sig í hlutverkið. 

Eins og áður kom fram er sýning Atla Más í Listasal Mosfellsbæjar hluti af hátíðinni List án landamæra. Hátíðin leggur áherslu á menningarlega fjölbreytni og spilar list fólks með fatlanir lykilhlutverk, og hefur list listamanna með þroskahömlun og aðrar vitsmunalegar skerðingar verið sérstaklega áberandi frá stofnun hátíðarinnar árið 2003. Hátíðin hefur stuðlað að samvinnu á milli listamanna, fatlaðra og ófatlaðra, byggt brýr á milli ólíkra sviða listheimsins og opnað á umræðu um fjölbreytileika í listum. List fatlaðs fólks má flokka sem „outsider list“, sem gjarnan er á jaðrinum, sköpuð af listamönnum sem hafa ekki hlotið formlega akademíska menntun og eru meðal annars af þeim ástæðum utan kjarna listheimsins. 

Múrar listheimsins

En ef við lítum til tækifæra fólks í formlegri akademískri listmenntun á Íslandi eru þau ekki eins og best yrði á kosið. Listnemendur sem ekki falla að norminu mæta hindrunum sem eru í senn fjárhagslegar, manngerðar og samfélagslegar. Það leiðir af sér að hópurinn fær ekki þann vettvang fyrir æfingar undir leiðsögn fagmenntaðra og svigrúm til tilraunamennsku og þróunar á stíl sínum sem formleg akademísk menntun veitir, en þar fyrir utan er hún oft talin einhvers konar lykill að því að teljast alvöru listamaður. Raunar hefur listheimurinn sett upp múra; inngönguskilyrði og kröfur sem sniðin eru að ófötluðu fólki; um ákveðna hæfni, líkamlega og vitsmunalega, um akademíska færni sem hefur í reynd ekkert með hæfileikann til þess að skapa frumlega, áhrifamikla list að gera. Og ef fólk ætlar að eiga kost á formlegu framhaldsnámi í listum þarf það að uppfylla skilyrði sem sniðin eru að þröngum hópi fólks í samfélaginu — annars á það ekki kost á að stunda listnám, tilheyra félagasamtökum listamanna eða sækja um í styrktar- og verkefnasjóði. 

Tilheyra jaðrinum

Af þessum ástæðum má segja að listamenn með fatlanir séu dæmdir til þess að tilheyra jaðrinum. Þeim er komið fyrir þar af „miðjunni“ sem skilgreinir jaðarinn. Og það þarf ekki að ætla að listamenn með fatlanir vilji ekki nákvæmlega það sama og aðrir listamenn — að sýningar þeirrar séu vel sóttar, að list þeirra sé keypt af söfnum og listunnendum og að fá að sýna með öðrum framúrskarandi listamönnum. Tilhneigingin núna er að listamenn með fatlanir sýni á sérsýningum, með öðrum fötluðum listamönnum — en List án landamæra hefur sýnt sig hve frjótt og gjöfult samstarf listamanna getur verið, listamanna sem höfðu líklega aldrei hist vegna þessara fyrrnefndu múra. Þá hefur hátíðin einnig vakið athygli á framúrskarandi listamönnum utan innsta kjarna listasenunnar, listamönnum á borð við Atla Má. Sýning hans er stórskemmtileg, litrík og frumleg, og vekur upp vangaveltur um heim ofurhetjunnar með nálgun sem er frábrugðin, því hún hefur enga ádeilu — heldur sýnir nýjar víddir með einlægni og einskærum áhuga.
 
Og maður veltir fyrir sé hve fátækur sá listheimur er, sem ekki lítur til og stuðlar að menningalegri fjölbreytni, og fer af þeim sökum á mis við marga framúrskarandi listamenn sem settir eru á jaðarinn af þeirri ástæðu einni að þeir falla ekki að fyrirframgefnum hugmyndum um listamanninn og hæfni hans.