Fortíðin vaknar og lifnar við frammi fyrir lesendum bókar Dóru S. Bjarnason, Brot – konur sem þorðu, þar sem hún rekur lífshlaup þriggja kvenna sem syntu á móti straumnum. „Brotin sem Dóra S. Bjarnason safnar hér saman til að segja sögu þeirra Adeline, Ingibjargar og Veru eru í senn upplýsandi og afskaplega skemmtileg og forvitnileg aflestrar,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson gagnrýnandi.


Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Brot eftir Dóru S. Bjarnason er sagnfræðilegt verk – og raunar sögulegt rannsóknarverkefni – þar sem höfundur leitast við að draga upp mynd af lífshlaupi þriggja kvenna og varpa um leið ljósi á allt í senn, lífsreynslu og æviskeið sem ekki hefur áður þótt tilefni til að halda til haga og varðveita, og mótunaröflin, samfélagsviðmiðin og menningarumhverfið sem í ekki svo ýkja fjarlægri fortíð sniðu tilvistarlegu andrými kvenna stakk. Konurnar sem hér um ræðir tilheyrðu auðvitað tiltekinni stétt, engin þeirra var alin upp í fátækt og menntun stóð þeim til boða, nokkuð sem beindi lífi þeirra strax í ákveðin farveg. Aðspurðar myndu þær sennilega hafa rakið uppruna sinn og þjóðerni til meginlands Evrópu, það rásar hins vegar örlítið eftir kynslóðum nákvæmlega hvaða þjóðland væri þá nefnt til sögunnar, en mikilvæga Íslandstengingu áttu allar þrjár sameiginlega. Þetta eru þær Adeline Ritterhaus, fædd árið 1867 og látin 1924, dóttir hennar Ingibjörg St. H. Bjarnason, 1901 til 1967, og að síðustu dóttir Ingibjargar, Vera Zilzer, fædd 1927 og látin 2004. Hér er með öðrum orðum um þrjá ættliði í móðurlegg að ræða og saman spannar saga þeirra alla tuttugustu öldina, og gott betur, að viðbættum svo tíðum ferðalögum og fjölbreytni hvað dvalarstaði varðar að nærri draumkennt er að rekja ferðir þeirra með landakort sér við hlið.

Í vissum skilningi hefst sagan með afa höfundar. Þorleifur H. Bjarnason var sigldur háskólamaður sem numið hafði latínu í Kaupmannahöfn þegar hann tekur þá ákvörðun árið 1897 að ferðast til Þýskalands og Sviss til frekara náms. Ferð sú reyndist afdrifarík því þar kynnist hann „bráðskemmtilegri og eldklárri konu“, áðurnefndri Adeline sem um þær mundir er að ljúka doktorsprófi hinu minna frá Háskólanum í Zürich, þar sem hún var samtíða öðrum nemanda, Alberti nokkrum Einstein. Sérgreinar Adeline voru málfræði og germönsk mál en þess utan lærði hún einnig forngrísku, latínu og sanskrít. Hún vildi bæta við sig íslensku, færeysku og öðrum norrænum amálum og það var Þorleifur sem tók að sér kennsluna. Nokkrum árum síðar lauk hún doktorsprófi hinu meira og hugði á inngöngu í akademíuna en ýmislegt hafði þá breyst, til að mynda var hún þá gift Þorleifi og hafði reynt sig skamma hríð við búsetu á Íslandi, og, síðast en ekki síst, þá hafði hún eignast dóttur, Ingibjörgu, söguhetju næsta hluta bókarinnar.

Áður en lengra er haldið er þó rétt að staldra í augnablik við nafn bókarinnar, Brot. Vissulega er um brot úr lífi kvennanna þriggja að ræða, frásögn Dóru er ekki tæmandi og eitt af því sem heppnast vel við ritun verksins er að höfundur stígur reglulega inn í frásögnina og staðsetur sig andspænis söguefninu. Á það við bæði um tilurð bókarinnar og vinnuferlið sjálft. Eins og gefur að skilja var oft fátt um heimildir, sum bréf Adeline til Þorleifs hafa varðveist, og þau eru notuð. Sama á við um bréf sem Ingibjörg skrifar á ákveðnum tímabilum, en fanga er leitað víðar. Viðtöl eru tekin, lagt er í rannsóknarleiðangra, skjalasöfn og önnur söfn eru heimsótt, en ýmsum spurningum verður einfaldlega ekki svarað. Meira er vitað um sum tímabil í lífi kvennanna en önnur, og það eru því brot sem höfundur vinnur með og ber á borð fyrir lesendur. Hér er þó ekki um galla að ræða, um er að ræða form sem verkinu er fyrirfram áskapað. Dóra hefur unnið mikið og fróðlegt starf með rannsóknum sínum og brotin eru heillandi. En auk þess að vera brot úr lífi kvennanna þriggja er bókin jafnframt brot úr sögu sem ekki var skrifuð, sögu kvenna. Þessari sögu mætti jafnframt líkja við risastóran vasa sem brotnaði og aldrei verður hægt að setja saman aftur, saga sem ekki var hirt um að skrásetja eða taka með í reikninginn. Í því samhengi er verk Dóru, líkt og verk kvennasögufræðinga almennt, afskaplega mikilvægt, þetta er framlag til þekkingar og tilraun til að rétta kúrsinn í skilningi okkar á fortíðinni, koma fram með brot úr vasanum þótt heildarmyndin sé handan seilingar.

Við þetta mætti svo reynar bæta að auðvitað liggur fyrir að þegar sagan er sögð er ávallt valið og hafnað, kotabóndinn, leiguliðinn eða pylsusalinn í Austurstræti hefur sjaldnast verið viðfangsefni sagnfræðinga, og möguleikum sögulegrar þekkingar eru ýmis konar skorður settar. Í þessum skilningi er sú mynd af sögunni sem við þekkjum selektíf og hvorki alhliða né tæmandi. En að konur hafi farið halloka við ritun þessarar sögu er augljóst, óþarfi liggur við er að benda á það. En í samhengi við það hvernig unnið er með brot er gagnlegt að halda til haga því sem Sigrún Pálsdóttir, sagnfræðingur og rithöfundur, bendir á í grein í Sögu árið 2012, „Hreyfimynd með hljóði frá 19. öld eftir Þóru Pétursdóttur“. Þar bendir Sigrún á mikilvægi þess að fjalla um konur í sagnfræðilegu samhengi ekki út frá því sem kalla mætti stórsögulegt sjónarhorn karla, viðmiðum sem þegar hafa verið mótuð og gefið mikilvægi en nægja ekki til að gera grein fyrir margbreytileika manneskju hvort sem það er í fortíð eða nútíð.

Dóra fellur heldur ekki í þá gildru að gera það sem kalla mætti „stórtíðindi“ bókarinnar að miðflóttaafli hennar, einhverju sem sópar öllu öðru út á jaðarinn, en tíðindin væru þá til dæmis hlutdeild Ingibjargar í framúrstefnusenu Parísar á fjórða áratugnum og þátttaka hennar í fyrstu alþjóðlegu samsýningunni á afstraktlist í heiminum. Það er mér jafnframt til efs að hefðbundin „stórsöguleg“ úttekt á listaferli Ingibjargar myndi dvelja í jafn ríkum mæli og hér er raunin við hið gríðarháa flækjustig sem fylgir því að vera einstæð móðir í brakandi miðju evrópskra listahræringa.

Núna hins vegar langar mig til að venda kvæði mínu örlítið í kross og vitna í grein sem birtist síðsumars í Morgunblaðinu ári eftir andlát Adeline, eða 1925, þar sem fjallað er á stöðu kvenna í því sem þá var nútíminn. Þar segir:

„Fortíðin ól konuna upp sem kynferðisveru einvörðungu,—þannig, að hún yrði sem útgengilegust barneignavjel; þegar maðurinn stofnaði heimili sitt, þá var konan húsgagn húsgagnanna. Hún ljet sjer vaxa sítt hár, og lærði frá bernsku að höfða til verndareðlis og riddaraskapar hjá karlmanninum, og haga sér mjúkt og sætlega í samkvæmum, vandist á að láta hjálpa sér upp í vagninn, standa upp fyrir sér í sporlestinni, opna fyrir sér dyrnar, borga fyrir sig á skemmtistöðunum og bjóða sér að ganga á undan í björgunarbátinn í lífsháska (æ hve fegurt, æ hve hrærandi!!). En þetta voru bara hundakúnstir og skollaleikir. Eftir giftinguna varð hún að hírast heima, meðan maðurinn var önnum kafinn út í frá, við ýmis opinber störf í þágu þjóðar og menningar; hún stóð mitt í krakkavaðnum og sópaði ryk af húsgögnunum eða gaf skipanir með grautinn, sefasjúk, fáfráð og ólétt.“

Höfundur þessara orða var karlmaður, kornungur uppskafningur, þá nýbyrjaður að kenna sig við Laxnes í Mosfellssveit. Auðvitað verður að setja fyrirvara við karla í samfélagslegu björgunarhlutverki gagnvart „minni máttar“, kannski er það bara önnur tegund af „riddaraskap“ og alltaf er auðveldara að skrifa en að lifa. En ritgerð Halldórs um drengjakollinn og íslensku konuna er þrátt fyrir allt dálítill gullmoli og það gneistar af henni í allri karlafýlunni í meginstraumi íslenskra blaða og tímarita tímabilsins. Og mér varð hugsað til hennar í samhengi við Brot vegna þess að konurnar þrjár sem Dóra segir frá hafna allar hefðbundnum kvenhlutverkum síns tíma, neita að leika engil heimilisins, láta standa upp fyrir sér og hjálpa sér í gegnum dyr, þær sjá í gegnum þessi Potemkin-tjöld tilgangslausrar kurteisi og fágaðrar falshegðunar og greina kúgunina og einræðið sem liggja að baki. Í staðinn sækja þær sér menntun og reynslu og skapa sér líf í menningarumhverfi sem nærir þær vitsmunalega og andlega. Sem einstæðar mæður segja líka tvær af þremur aðalpersónum bókarinnar skilið við samfélagslega, menningarlega, sögulega og að sumu leyti lagalega skilyrt skapalón móðurhlutverksins. En Halldór var auðvitað útópískt þenkjandi og sú mynd sem hann dregur upp af íslensku nútímakonunni árið 1925 var fjarri því raunsönn, nema í undantekningartilvikum, og farvegurinn að lífsháttunum sem hann þarna heldur á lofti átti ekki eftir að verða sæmilega auðsóttur fyrr en löngu, löngu síðar. Þetta er nokkuð sem frásögn Dóru dregur fram og ítrekar hvað eftir annað: Þrátt fyrir að vera afskaplega hæfur fræðimaður fær Adeleine ekki háskólastarf í Þýskalandi, einfaldlega vegna þess að á þessum tíma var konum meinað um að gegna slíkum stöðum. Þeim var raunar meinað um bæði háskóla- og menntaskólagöngu, sem útskýrir af hverju Adeline flyst um set til Zürich. Þegar dóttir hennar, Ingibjörg, sækir um inngöngu í læknisfræði við Háskóla Íslands um miðjan fjórða áratuginn, þá til að nema lífefnafræði, og kemst inn, brýtur hún staðalmyndir og er frávikið holdi klætt, sjaldgæft var að konur stunduðu læknisfræði á þessum tíma og fáheyrt að þær gerðu það samhliða vinnu og barnauppeldi.

Listamannakreðsur Parísar, mannaðar helgimyndabrjótum lista og samfélags, voru þegar öllu var á botninn hvolft heldur ekki svo gerólíkar þeirri borgaralegu veröld sem að nafninu til var hafnað og strítt gegn. „Konur áttu erfitt uppdráttar í myndlistinni á þessum tímum,“ segir Dóra í kaflanum sem lýsir fyrstu kynnum Ingibjargar af bóhemalífinu í París, og heldur svo áfram: „Þær voru sjaldnast teknar alvarlega af körlunum í hópnum, skrifuðu hvorki né töluðu um kenningar að baki listarinnar.“ Meðan karlarnir rökræddu fræðin „af hita langt fram á nótt“ var ekki kallað eftir sjónarhorni kvennanna en þær máttu hlusta. Þetta er lýsing sem gæti átt við samskipti karla og kvenna í svo óskaplega mörgum félagslegum og listrænum byltingahópum, knúnum áfram af „réttlætiskennd“ eða sköpunarvilja karla, alla tuttugustu öldina.

Brotin eru það sem við höfum, eins og ég nefndi hér að ofan, og í því felst auðvitað ákveðinn harmleikur. En brotin sem Dóra S. Bjarnason safnar hér saman til að segja sögu þeirra Adeline, Ingibjargar og Veru eru í senn upplýsandi og afskaplega skemmtileg og forvitnileg aflestrar, fortíðin vaknar og lifnar fyrir lesanda og samveran við þessar merkilegu manneskjur er heilmikil og rík gjöf.