Fólk flykkist í Laugardalinn í Reykjavík vegna tónleika Eds Sheerans. Búist er við að um 50 þúsund manns mæti á Laugardalsvöllinn um helgina. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvatti tónleikagesti til að koma tímanlega. Það virðist hafa gengið eftir og röðin á tónleikana er þegar orðin löng.

Tónleikagestur sagði fréttastofu að áfram bætist í röðina. Fólk sé búið að bíða hátt í tvo tíma í röðinni sem nú nái í kringum hálfa Laugardalshöll. Hún segir að mikið umstang sé á svæðinu.

Þá er aðdáendasvæði, eða svokallað fan zone í dalnum. Á vef Senu Live segir að fólk geti hitað upp saman þar fyrir tónleikana og gætt sér á veigum. Einnig er hægt að taka því rólega að tónleikum loknum, þannig megi forðast mesta umferðaröngþveitið. 

Lokað verður fyrir umferð um Suðurlandsbraut, Reykjaveg og Engjaveg hluta dags í dag og á morgun vegna tónleikanna. Þá er frítt í strætó fyrir tónleikagesti um helgina.

Fréttin hefur verið uppfærð.