Yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar segir tvær nýjar þyrlur, sem leysa eldri af hólmi, breyta mjög miklu fyrir leitar- og björgunarstörf og Gæslan sé nú vel búin. Sú seinni, af tveimur nýjum þyrlum, kom til landsins í gærkvöldi.
Nýju þyrlurnar eru leiguþyrlur og koma í stað tveggja eldri leiguvéla, en fyrir á Gæslan eina þyrlu. Fyrri vélin, TF-EIR kom til landsins í mars og í gær kom TF-GRO.
Þriggja manna áhöfn sótti hana til Stafangurs í Noregi, þaðan sem flogið var til Sumbrugh á Hjaltlandseyju, Þórshafnar í Færeyjum og svo Hafnar í Hornafirði og loks lent í Reykjavík í gærkvöldi. Á heimasíðu Gæslunnar segir að þessar vélar færi Landhelgisgæsluna inn í nútímann fyrr en ráðgert var. Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri segir nýju vélarnar breyta miklu.
„Við teljum okkur vera með betri vélar, sem eru öruggari, hafa meira flugþol og meiri flugdrægni og ættu að skila okkur í meiri afkastagetu.“
Eru þær vel útbúnar til björgunarstarfa?
„Já, þessar vélar eru sérstaklega hannaðar fyrir leit og björgun og eru mjög vel búnar fyrir slíkt.“
Vélarnar eru stærri en þær sem leystar eru af, heildarþyngd eykst um 2,5 tonn, þær eru 10-20% hraðfleygari, flugþolið er klukkutíma meira og meiri flugdrægni og hægt er að bjarga fleirum í einu. Töluverð umræða varð vegna svona véla sem fórust að því að talið er vegna galla í gírkassa.
„Við fórum í gegnum þá umræðu mjög vel, skoðuðum alla fleti á því máli og teljum að þau mál hafi verið leyst á farsælan hátt og líkurnar á að svona endurtaki sig séu stjarnfræðilega litlar.“
TF-GRO verður líklega tekin í notkun í næstu viku. Þess má geta að síðar stendur til að fara í útboð og kaupa þrjár nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, en Sigurður Heiðar segir að miðað við stöðuna núna sé Gæslan vel búin.
„Á heimsvísu, já, ég myndi telja það,“ segir Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri.