Uppistand og óvenjulegar uppákomur hafa verið daglegt brauð í breska þinginu undanfarið. Svo eru það dómsmál um heimild forsætisráðherra til að senda þingið heim. Og það stefnir í kosningar. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins hefur misst þingmeirihlutann og þá, að hluta, tökin á framvindunni. Óljóst hver græðir og hver tapar á óreiðunni. Brexit verður lykilatriðið í komandi kosningu og því mikið undir því komið hvort stjórnin getur snúið Brexit-sögunni sér í hag.
Forsætisráðherra sem getur ekki efnt til kosninga
Þegar forsætisráðherra vill efna til þingkosninga hefur hann venjulega tök á því. En nei, ekki í Bretlandi – forsætisráðherra, án þingmeirihluta, getur hvorki ákveðið hvernig og hvenær Bretar yfirgefi Evrópusambandið né hvenær verði kosið. Hér ríkir því kosningabarátta án dagsetningar.
Kosningaósigrar í þinginu í sögulegu samhengi
Það eru merkilegir tímar. Eftir um tvo mánuði í Downing stræti, hefur Boris Johnson forsætisráðherra tapað í öllum atkvæðagreiðslum í þinginu sem skiptu máli, alls sex sinnum. Til samanburðar: Margrét Thatcher varð fjórum sinnum undir í þinginu á sínum ellefu valdaárum; Tony Blair fjórum sinnum á tíu árum.
Tekist á um þinghlé forsætisráðherra fyrir dómi
Nýjasti vandinn eru svo dómsmál um þá ákvörðun forsætisráðherra að senda þingið heim. Þinghlé er fastur liður fyrir stefnuræðu forsætisráðherra. En það er ekki fastur liður að senda þingið heim í fimm vikur.
Forsætisráðherra þvertekur fyrir að þinghléð sé til að hindra þingumræður um Brexit, það gefist nógur tími. Og þá einnig ef honum tekst að semja upp á nýtt við Evrópusambandið um útgöngu. Sitt sýndist hverjum og tvö mál voru höfðuð, í Skotlandi og Englandi.
Hæstiréttur úrskurðar um þinghlé
Enski dómurinn segir þetta pólitíska ákvörðun og því ekki í verkahring dómsins. Skoski dómurinn taldi hins vegar forsætisráðherra hafa sent þingið heim á fölskum forsendum. Á næstunni mun Hæstiréttur kveða upp sinn úrskurð. Jafnvel þó dómur falli gegn stjórninni og þinghléð teljist ólögmætt er ekki þar með sagt að forsætisráðherra verði skikkaður til að kalla þingið aftur saman.
Brexit-leysi nærir Brexit-flokkinn
Af því Boris Johnson varð forsætisráðherra við mannaskipti í flokknum og ekki eftir kosningasigur hafa kosningar verið ræddar síðan hann kom til valda. Það virtist augljóst að Íhaldsflokkurinn gæti ekki lagt í kosningar nema að koma Brexit fyrst frá. Annars myndi Brexit-flokkur Nigel Farage mala hann.
Kosningar sem þingið vill ekki – í bili
Til að tryggja nú Brexit reyndi forsætisráðherra að fá þingið til að samþykkja kosningar um miðjan október. Hugðist þannig fá stuðning þjóðarinnar til útgöngu, sama hvernig. Stjórnarandstaðan taldi þetta bellibragð til að koma Brexit í kring, jafnvel án samnings. Hún hafði því í gegn lög sem fresta Brexit fram í janúarlok, verði ekki samið. Reyndar þarf ESB að samþykkja frestun, önnur saga.
Johnson í leit að sigursögu
Johnson er nú í leit að sigursögu fyrir kosningarnar. Ef hann hefur ekki Brexit-sigursöguna, þá sem bjargvætturinn í stríði við þingið sem skelli skollaeyrum við Brexit-vilja þjóðarinnar. Hann hamrar nú á tvennu: að hann ætli að semja við Evrópusambandið um útgöngu, þó hann hræðist ekki samningsleysi. Ella, samningur eða ekki og þrátt fyrir lög, útgangan verði í lok október og hann biðji ESB alls alls ekki um frest.
Fátt um augljósa Brexit-kosti
Spurningin er hvernig hann ætlar að koma þessu heim og saman. Segir hann af sér ef ekki hefur samist um miðjan október, af því hann vilji ekki krjúpa fyrir ESB? Vandinn er að þá missir hann öll tök á Brexit-framvindunni þó hann gæti kannski í kosningabaráttunni slegið sig til riddara fyrir staðfestuna.
Brexit-flokkurinn – hættulegasti andstæðingur Johnsons
Þetta gæti þó styrkt hættulegasta andstæðinginn, Brexit-flokkinn. Farage býður Johnson kosningabandalag sem forsætisráðherra hefur hingað til hafnað staðfastlega. Hvað yrði eftir kosningar er annað mál en slíkt samkrull ofbýður bæði harða kjarna Íhaldsflokksins sem Johnson gerir sér dælt við, svo ekki sé talað um hófsamari íhaldsmenn.
Samningur Johnsons gæti farið eins og samningur May
Ef nú Johnson næði samningi við ESB gæti hann upplifað þrengingar forvera síns, Theresu May. Hennar samningur féll hvorki í kramið hjá Brexit-sinnum né ESB-sinna þingmönnum, sem felldu hann þrisvar. Þingheimur er þó kannski orðinn Brexit-þreyttur og samningsfúsari en áður. Með samningi fást tvö ár til að semja um framtíðarsambandið við ESB, sem Bretar eru þá samhliða þann tíma. Þó ekki á vísan að róa, þingheimur er í uppreisnarham.
Stöðugt forskot Íhaldsflokksins á Verkamannaflokkinn
Í yfirstandandi hremmingum getur Johnson glatt sig við að skoðanakannanir sýna stöðugt forskot Íhaldsflokkins á Verkamannaflokkinn. En kjósendur eru óstöðuglyndir, skoðanakannanir ótraustar. Og alls óvíst að Íhaldsflokkurinn næði meirihluta þó hann fengi flest atkvæði.
Þjóðaratkvæðagreiðsla aftur rædd
Einmitt af því kosningar munu ekki endilega skýra Brexit-línurnar er aftur farið að ræða aðra þjóðaratkvæðagreiðslu, enn ein breytan í pólitíska púsluspilinu hér. – Kosningabaráttan, mörkuð Brexit-umræðunni, mun verða eitilhörð – og útkoman óljós. Líkt og dagsetning kosninganna.