Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hvatti Breta til þess að sækja um tímabundna aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Hann ræddi við bresku fréttastofuna Sky News í morgun um Brexit.

„Ég efast ekki um að Bretland eigi eftir að blómstra eftir útgönguna úr Evrópusambandinu – vegna reynslu Íslendinga af því að geta tekið eigin ákvarðanir út frá eigin hagsmunum. Þið hafið kjósendur sem hafa ákveðið hvað er best fyrir landið. Og sem einstaklingur sem trúir á lýðræði og hefur trú á Bretlandi vegna sögu landsins efast ég ekki um að þið verðið betur stödd en áður,“ segir Sigmundur.

Sigmundur segir ljóst að einhver vandamál kunni að koma upp við útgönguna til skemmri tíma og nefnir hann sérstaklega hvaða áhrif Brexit muni hafa á markaði. „Eflaust munu margir reyna að kenna Bretum um einhverja örðugleika,“ segir hann.

„Ef þið viljið forðast þessi vandamál ættuð þið að gera eins og við gerðum og sækja um tímabundna aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum reyndar ekki með tímabundna aðild en þið gætuð orðið tímabundnir meðlimir. Það myndi að mínu mati leysa öll ykkar vandamál,“ segir Sigmundur. „Þannig getið þið fengið allt það góða án þess slæma.“