Peter Frankopan segir í nýrri bók þar sem hann leggur út af siglingaleiðinni Silkiveginum að Vesturlönd hafi lengi talið sig vera fánabera heimsins, að aðrir eigi að feta í þeirra fótspor en hafi aldrei viljað eða haft áhuga á að viðurkenna sýn annarra.
Jóhannes Ólafsson skrifar:
Fátt svalar forvitni minni jafn vel og bókasöfn og bókabúðir. Ég stenst varla þetta andrúmsloft, snyrtilegar og vel skipulagðar bókahillur og vökult auga bókvarða og bóksala. Ég geri mér grein fyrir því að bókin er vissulega í allt, allt annari stöðu en hún var fyrir bara 20 árum og staða skáldskapar í prentuðum bókum hefur verið snúið á hvolf næstum. En ekkert er eilíft, allt breytist. Annað væri hjátrú. Þrátt fyrir þetta höfum við mörg ósvalandi þörf fyrir þekkingu og því að víkka sjóndeildarhringinn, heyra aðrar raddir, kynnast öðrum sjónarmiðum.
Til þess finnst mér internetið ennþá fremur óstöðugt, of alltumlykjandi, en þegar ég stíg inn í bókasöfn og bókabúðir finn ég eitthvað pínulítið rómantískt öryggi, að vita af öllum þessum óbrunnu bókum sem enn standa vörð um þekkinguna. Og ég ílengist alltaf lengst í einni ákveðinni deild. Óskálduðu efni og fræðibókum. Þannig finnst mér best að fylgjast með deiglunni: eins og hún kemur fyrir sjónir í útgefnum og ritstýrðum bókum, þótt ég hefði aldrei tíma til að lesa allar þessar fræðibækur, ekki frekar en skáldsögur og ljóðabækur. En þarna festist ég, eins og húsfluga í kóngulóavef. Í þessum pistlum mínum ætla ég að taka fyrir nokkrar nýjar eða nýlegar fræðibækur sem ég staldraði við af alvöru og tók mér tíma í að lesa í gegn. Markmiðið er ekki að skrifa gagnrýni eða fella dóm á bókina en vonandi veita þeim innsýn í efni bókarinnar sem munu ekki lesa bókina og kveikja áhuga hjá forvitnum lesendum.
Og talandi um nýja tíma, breytta tíma og þörfina fyrir ný viðhorf, þá er bókin sem ég ætla að fjalla um í dag viðeigandi upphafspunktur fyrir þessa pistlaröð. Í nóvember á síðasta ári kom út bók sem kallast The New Silk Roads, Nýju silkileiðirnar, eftir breska sagnfræðinginn Peter Frankopan sem kom út undir merkjum bókaútgáfunnar Bloomsbury. Bókin er framhald eða einskonar viðauki við bók sem Frankopan gaf út árið 2015, The Silk Roads sem vakti mikla athygli og varð metsölubók víða um heim. Í þeirri fyrri greinir Frankopan frá silkileiðunum svokölluðu, flóknu viðskiptaneti sem tengdi saman Evrópu, Mið-Austurlönd og suðaustur Asíu með flutningi á vörum og menningu og má rekja allt aftur til Rómarveldis til forna.
Silkileiðirnar fornu fengu ekki þetta einkennandi nafn, fyrr en á seinni hluta 19. aldar, á hátindi nýlendutímans. Það var þýski baróninn og landfræðingurinn Ferdinand Paul Wilhelm von Richthofen sem fann upp á nafninu en eitt af því þekktasta sem flutt var frá austri til vesturs var silki sem evrópskir nýlenduherrar nutu góðs af. Nafnið ber þó merki hugmynda rómantísku stefnunnar enda margt annað og skuggalegra sem átti sér stað meðfram silkileiðunum en frjáls og sanngjörn viðskipti með silki.
Í Silk Roads kortleggur Frankopan silkileiðirnar og tilurð þeirra, auk þess sem hann reynir að bregða nýrri birtu á hvaða áhrif leiðirnar höfðu á menningarsvæði sem þeim tengdust og hafa enn. Bókin hlaut verðskuldaða athygli á sínum tíma, fyrir innsæi Frankopans og skilning hans á áhrifum og virkni alþjóðaviðskipta aftur í aldir. En hann hlaut líka gagnrýni svo því sé haldið til haga. Í bókadómi sem birtist í vefútgáfu breska blaðsins Guardian segir Anthony Sattin, blaðamaður sem hefur skrifað ötullega um Mið-austurlönd, að Frankopan freistist til að einfalda söguna um of. Eins og fyrr segir, dæmi ég ekki um það hér.
Framhald metsölubókar Frankopans og sú sem er til umfjöllunnar hér, The New Silk Roads, er aftur á móti ekki um fortíðina. Hún er einskonar viðauki, eins og höfundur orðar það sjálfur í inngangi, eftirmáli sem varð að bók um samtímann og ekki síst; framtíðina. Enda er undirtitill bókarinnar einfaldlega Samtími og framtíð heimsins. Í New Silk Roads, sem spannar rétt liðlega 250 síður, reynir Frankopan að setja fyrri bók sína í samhengi við líðandi stund og það sem efst er á baugi í heimsmálunum í dag, Brexit, Trump og uppgang í Kína. Í stuttu máli heldur hann því fram að það sem er að gerast í dag mætti kalla „ris austursins“ (og lesa mætti á milli línanna sem upphafið að hnignun vesturlanda en ég mun koma betur að því á eftir).
Hann minnir okkur á það hve samtengdur heimurinn hefur í raun lengst af verið en ítrekar ofuralþjóðavæðingu síðustu 30-40 ára með frjálsari viðskiptum, internetinu og hraðri tækniþróun. Hann stillir þeirri einangrunarhyggju sem á sér stað í Evrópu og Bandaríkjunum upp andspænis því sem er að gerast meðfram silkileiðunum, þar sem á sér stað aukin samvinna, ný viðskiptabönd eru í mótun og stóraukin fjárfesting frá ríkjum Asíu. Til að umorða: fjármagn, auður eða kapítal heimsins hefur verið að færast austur og atburðir síðustu fáu ára hafa gert það morgunljóst. Þetta vita þeir sem fylgjast með heimsmálunum en Frankopan segir Vesturlandabúa vera of sinnulausa gagnvart þessari nýju stöðu.
Frankopan nefnir fjölmörg dæmi þessu til stuðnings, bæði stór og smá, og fer vandlega yfir stöðu valdamestu ríkja heims. Hann leiðir að því líkur að jafnvel þótt hann hefði skrifað fyrri bókina, Silk Roads í upphafi 10. áratugarins hefði efni hennar hugsanlega verið jafn mikið í deiglunni þá og nú; þegar Berlínarmúrinn var rifinn, Sovíetríkin liðuðust í sundur, Persaflóastríð braust út og uppgangur og breytingar áttu sér stað í ýmsum ríkjum meðfram silkileiðunum; Kína, Afganistan, Tyrklandi, Indlandi og víðar. Leiðum sem Frankopan kallar hjarta heimsins. Á þessu svæði spratt stór hluti menningar vesturlanda eins og við þekkjum hana og má þar nefna dreifingu kristni sem augljóst dæmi. En þrátt fyrir að fá stóran hluta af menningunni frá austri virðist sem nýlendutíminn hafi gulltryggt þá frásögn að Evrópa hafi verið miðpunktur alls og skekkjan, að mati Frankopans, sé að sú frásögn lifi góðu lífi þrátt fyrir að hún standist ekki skoðun.
Eitt stærsta og mest áberandi dæmið um ris austursins í dag er metnaðarfullt framtak Kínversku ríkisstjórnarinnar sem hefur verið kallað belti og vegur og felur í sér umfangsmiklar fjárfestingar og framkvæmdir við mikilvægar stöðvar meðfram silkileiðunum, bæði á láði og legi með vegakerfi, brautarteinum, leiðslum og höfnum. Allt frá hraðbrautum í Pakistan til alþjóðahafnar í suður Sri Lanka. Og öll vötn renna til Kína sem með þessu reynir að efla frjáls og greið viðskipti og styrkja tengslin út í heim. Það gæti hugsanlega gert Kína að algjörum miðpunkti í viðskiptakerfi heimsins. Frankopan segir þó reyndar að kostir og gallar séu á framtakinu belti og vegur og að margt þurfi að ganga upp.
Nefna má fleiri dæmi úr bók Frankopans um áhrif frá austri til vesturs. Hann nefnir til að mynda muninn á fótbolta nú og fyrir 25 árum. Enskur fótbolti hefur tekið algjörum stakkaskiptum, langflestir þeirra leikmanna sem skipa stærstu lið dagsins í dag eru ekki fæddir í Bretlandi öfugt við það sem var í upphafi 10. áratugarins. Það eitt og sér segir sitt um alþjóðavæðingu heimsins en eignarhald á enskum fótboltaliðum segir kannski enn skýrari sögu. Fjöldi deldarliða í Englandi og raunar Evrópu í dag er í eigu erlendra aðila, margir hverjir frá löndum meðfram silkileiðunum. Frá 2015 hafa Aston Villa, West Bromwich Albion, Birmingham city og fleiri verið keypt af Kínverjum, auk ítölsku liðanna AC og Inter Milan. Og Manchester City, tvöfaldir englandsmeistarar, er eins og margir vita í eigu aðila frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, og svona mætti lengi telja. Eignarhald margra liða í Evrópu má rekja til Katar, Saudí-Arabíu, Rússlands og víðar og sömu sögu er að segja í Bandaríkjunum og ekki bara í íþróttaheiminum. Körfuboltaliðið Brooklyn Nets, dagblaðið New York Post, hótelin Waldorf Astoria og Plaza og fleiri auk Warner Music útgáfunnar er allt saman í eigu eða er samrekið af fjárfestum sem tengjast Rússlandi, Mið-Austurlöndum og Kína.
Einnig mætti nefna flugsamgöngur í þessu samhengi en stór flugfélög leika lykilhlutverk í risi austursins. Stofnun flugfélagsins Quatar airways árið 1993 sem dæmi virtist á sínum tíma vera skot í myrkri. Til að byrja með var starfsemi flugfélagsins lítil og sömuleiðis eftirspurnin en í dag telur floti félagsins um 200 vélar, starfsmenn eru um 40 þúsund og áfangastaðirnir eru rúmlega 160. Quatar airways er þar að auki stærsti hluthafi í International Airlines Group, IAG, móðurfélags Aer Lingus, British Airways og Iberia. Félagið á líka hlut í flugfélaginu Cathay Pacific í Hong Kong. Quatar Airways stendur einna fremst í að auka framboð á farþegaflugi í heiminum og eftirspurnin mun aukast. Alþjóðlega flugsamgöngustofnunin, IATA, áætlar að fjöldi flugfarþega muni nær tvöfaldast fyrir árið 2036 og verða um 7,8 milljarðar á ári sér í lagi vegna aukinnar velmegunar íbúa Asíu, þar á meðal í Kína, Indlandi, Taílandi og Tyrklandi sem líklega munu fljúga með Quatar airways og öðrum risaflugfélögum.
Hér nefndi ég aðeins örfá en áberandi dæmi sem Frankopan nefnir í New Silk Roads um tilfærslu fjármagns frá vestri til austurs. Hann heldur því þó ekki fram þessi breytta heimsmynd útiloki vesturlönd, en þau séu á hraðri leið með að gera það sjálf. Með eigin sinnuleysi, naflaskoðun og innanbúðarpólitík aftra vesturlönd því að þau sjái heildarmyndina og sig sjálf í samhengi við hana. Öldum saman einkenndust samskipti Evrópu gagnvart öðrum heimshlutum af nýtingarhyggju og hroka. Vesturlönd hafa lengi talið sig vera fánabera heimsins, að aðrir eigi að feta í þeirra fótspor, gera eins og þau en hafa aldrei viljað eða haft áhuga á að viðurkenna sýn annarra. Skilningur vesturlandabúa er að miklu leyti byggður á misskilningi segir Frankopan, misskilningi um fortíðina og um nútíðina. Allt frá krossferðum miðalda til olíudeilunnar og stríðinu gegn hryðjuverkum. Og nú eru vesturlandabúar ekki í krossferð heldur á krossgötum. Heimurinn er að breytast.
Á topp tíu lista yfir stærstu rísandi hagkerfi dagsins í dag eiga vesturlönd ekki fulltrúa - þau eru öll í Afríku og Asíu. Þar sem yfir helmingur íbúa jarðar býr. Ungt fólk úr efri eða millistétt að austan, ferðast til vesturlanda, fara í háskóla og kynna sér siði og menningu - en það sé aðeins í eina átt. Frankopan ber þetta saman við svipaða þróun og fyrir 200 árum þegar sömu stéttir norður Evrópu ferðuðust til Rómar, Flórens og Feneyja og kynntu sér svæði sem eitt sinn voru miðpunktur fjármagns og valds en stóðu aðeins eftir sem minnisvarðar gullaldarskeið. Slík skeið koma hvorki né fara með hvelli að mati Frankoban, heldur hníga hægt og rólega og annað tekur við.
Peter Frankopan segir á einum stað í New Silk Roads að einhver hafði það að orði við hann, skömmu eftir að bókin kom út, að hún væri „huggandi á einhvern hátt, hún fékk mig til að hugsa að breytingar eru eðlilegar. Að valdamiðja heimsins tekur reglulega miklum straumhvörfum og að þessi óreiðukenndi og ókunnugi heimur er ef til vill ekki svo furðulegur og óvenjulegur eftir allt saman.“ Frankopan snýr spegli að heiminum og sýnir að breytingar eru í vændum en tekur að mínu viti ekki afstöðu til þeirra heldur bendir aðeins á að fólk þarf að aðlagast, horfa betur fram á veginn og undirbúa sig fyrir nýja heimsmynd.