Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, lagði mikla áherslu á aðgerðir í loftslagsmálum í ræðu sinni á landsfundi Vinstri grænna í dag. Hún sagði að verkefnið væri stórt og flókið en ekki dygði að lamast af ótta. Það þyrfti byltingu í þessum málum. Hún sagði að ef ekkert yrði að gert nú væri fólk að bregðast komandi kynslóðum.
„Það var undir forystu Vinstri-grænna sem fyrstu lögin voru sett um loftslagsmál árið 2012 og vegna þess að ég var á staðnum veit ég að það var við lítinn áhuga annarra flokka,“ sagði Katrín. Hún sagði að þrátt fyrir að ríkisstjórnin sem var við völd 2015 hefði tekið þátt í undirritun Parísarsáttmálans hefði sáralítið verið gert þar til núverandi stjórn tók við völdum.
Katrín sagði ljóst að margt þurfi að gera og að verkefnið sé flókið. „Hitt getur enginn efast um ef við gerum ekkert höfum við brugðist komandi kynslóðum og okkur sjálfum.“ Hún sagði að í fyrra hefði votlendi verið endurheimt á stærð við 63 fótboltavelli en að árið 2022 verði endurheimtin á við 700 fótboltavelli. Enn meira svæði fari undir landgræðslu og skógrækt.
Katrín sagði að samgöngusáttmálinn hefði ekki orðið að veruleika nema vegna þess að Vinstri græn voru til staðar við ákvarðanatökuna.
Ekki bara orð heldur aðgerðir
„Ég var beðin að flytja ávarp á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna nú fyrr í haust til að ræða aðgerðir okkar í kolefnisbindingu einmitt vegna þess að Ísland hefur brugðist við ákalli um aðgerðir og til okkar er horft,“ sagði Katrín. „Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur tekið skýrt fram að það eru aðgerðirnar sem þar skipta máli – ekki orðin, aðgerðir eins og við höfum hafið.“ Katrín sagði mikilvægt að lamast hvorki af ótta né láta sem ekkert sé, verkefnið væri að tryggja að skipið sökkvi ekki. „Það þarf byltingu.“
Risastór framfaraskref og úrtöluraddir
„Og um leið skulum við vera meðvituð um að þrátt fyrir þann mikilvæga árangur sem náðst hefur og þau risastóru framfaraskref sem stigin hafa verið í umhverfismálum á Íslandi, hvort heldur í loftslagsbaráttunni eða náttúruvernd, fyrir tilstilli Vinstri-grænna – verða alltaf einhverjir, þá verða alltaf einhverjir sem horfa ekki á heildarmyndina heldur aðeins einstök mál þar sem við höfum ekki náð öllu okkar fram,“ sagði Katrín. „Enginn stjórnmálaflokkur í samsteypustjórn neins staðar í heiminum hefur nokkru sinni fengið hverju einasta máli framgengt. Þetta er ekkert mjög flókið þegar maður segir það upphátt.“
Skattabreytingar í þágu þeirra tekjulágu
Katrín fjallaði breytingar sem tengjast lífskjarasamningnunum og breytingum á skattkerfinu. Nýtt þriggja þrepa kerfi verður innleitt. „Þetta kerfi er ekki aðeins til hagsbóta þeim sem voru aðilar að þeim samningi heldur öllum Íslendingum og ekki síst þeim tekjulágu,“ sagði Katrín. Þannig verði fyrsta þrepið mun lægra en áður og jafnist á við grunnþrepið í skattkerfum Norðurlandanna. Hún sagði nýja skattkerfið mikinn sigur fyrir Vinstri græn.
Að auki hækki barnabætur og skerðingarmörk þeirra færist ofar, sem gagnist best tekjulágu fólki. Þar við bætist aðgerðir í húsnæðismálum, í málefnum námsmanna og lífeyrisþega. „Þetta kæru félagar eru ekki aðeins loforð heldur aðgerðir sem eru þegar hafnar.“
Vakna ekki upp við skriðdreka
Katrín ræddi líka stöðu lýðræðisins. „Hillur bókaverslana svigna um þessar mundir undan bókum þar sem rætt er um dauðateygjur lýðræðisins,“ sagði Katrín. „Pólitísk lygi er ekki ný uppfinning en tæknibreytingar hafa gert þessa þróun ýktari en áður,“ og bætti við: „Þegar lýðræðið deyr verður það ekki þannig að fólk vakni einn daginn og það er skriðdreki fyrir utan gluggann. Miklu heldur þannig að það hverfur smám saman án þess að við veitum því eftirtekt, meiri völd færast í hendur stórfyrirtækjanna þar sem hin opinbera umræða fer í raun og veru fram, meiri völd færast í hendur þeirra sem hagnast á uppnámi stjórnmálanna eins og sjá má svo ljóslega í stjórnmálum samtímans.
Upptaka af ræðunni í heild sinni birtist í spilaranum efst í fréttinni innan skamms.