Úrkoma hefur aukist undanfarin ár og í Reykjavík hefur verið brugðist við með því að minnka það magn regnvatns sem fer í fráveitukerfið. Með því að setja gróður á þök er hægt að minnka það magn vatns sem fer í þakrennuna.
Regnið er þéttara en það var áður og rigningin hefur breyst, að sögn Hrannar Hrafnsdóttur, sérfræðings á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar. Rætt var við hana í Samfélaginu á Rás 1 í dag. „Skýrsla vísindanefndar hefur líka tekið undir það að það eru meiri líkur á úrkomu og þá skapar það aukið álag á veitukerfin okkar. Það er svolítið flókið ef við horfum á meira regn, fer það niður í veitukerfin og skapar aukið álag.“ Óvenju mikil útkoma getur haft þær afleiðingar að fráveitukerfið anni því ekki og þá flæðir upp úr því.
Lausnin við þessu eru svokallaðar „blágrænar ofanvatnslausnir“ á vegum Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. „Stutta útkoman er að setja gróður eða þekjur á þak, þá dregur úr því vatni sem fer niður í þakrennuna.“ Síðan er einhvers konar svelgur eða grassvæði sem getur tekið við vatninu þannig að það þurfi ekki að fara ofan í veitukerfið.
Ný hugsun við hönnun hverfa
Aðferðin er notuð við uppbyggingu nýrra hverfa í borginni. Hrönn segir að þetta sé alveg ný hugsun sem ef til vill geti hljómað flókin í fyrstu. Loftslagsmálin séu þó þannig að það þurfi að hugsa hlutina alveg upp á nýtt.
Stýrihópur á vegum borgarinnar og Veitna heldur utan um verkefnið. Það þarf að sinna gróðrinum ofanjarðar, hann götur og skipuleggja hverfin og margir sem koma að því.
Mikilvægt að draga úr losun
Reykjavíkurborg, líkt og önnur sveitarfélög hefur aðlagað sig að þeim breytta veruleika sem blasir við nú þegar bregðast þarf við afleiðingum loftslagsbreytinga og að sama skapi reyna að koma í veg fyrir frekari afleiðingar. Að sögn Hrannar snýst undirbúningurinn í stórum dráttum um að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni. „Svo er það hinn liðurinn að horfast í augu við loftslagsbreytingar. Það hefur verið unnið markvisst að því í nokkur ár og þurfum að meta og skoða hvernig við getum brugðist við þeim með góðum hætti.“
Afleiðingar misjafnar á milli heimshluta
Afleiðingar loftslagsbreytinga koma fram með misjöfnum hætti á milli heimshluta og jafnvel líka á milli landshluta, að sögn Hrannar. Í Reykjavík hafi sjávarstaða hækkað, úrkoma aukist og breytingar orðið á lífríki. Á Höfn í Hornafirði hafi land hins vegar risið. Í Suður-Evrópu eru afleiðingarnar annars konar, til dæmis svokallaðar hitaeyjur þar sem mikill hiti myndast inni í borgum með alvarlegum afleiðingum fyrir íbúa þar.