Snæfellsjökull er mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn en fjöldi þeirra sem sækir svæðið heim hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ hefur áhyggjur af hopun jökulsins og hugsanlegum áhrifum á efnahag bæjarfélagsins. Rætt var við hann á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Kristinn hefur undanfarna áratugi fylgst með jöklinum hopa en samkvæmt spá Veðurstofunnar verður Snæfellsjökull að mestu horfinn árið 2050.
Enginn hefur verið bæjarstjóri jafn lengi í sama sveitarfélagi af þeim sem nú sitja og Kristinn en hann hefur gegnt starfinu í rúma tvo áratugi. Því er óhætt að segja að hann þekki Snæfellsnes vel.
Lítið hefur snjóað á svæðinu frá 1995 og snjóforði á jöklinum því lítill. Skíðalyftu á jöklinum var lokað fyrir nokkru af þessum ástæðum. Snjókoma hefur verið með minnsta móti á þessu ári og sífellt gengur á jökulhettuna.
„Hann fær ekki það sem hann þarf. Það þarf helst að fenna á hann á haustin þannig að hann hafi eitthvað til að vinna á móti sumarveðrunum.“
Snæfellsjökull eitt það fyrsta sem grípur auga ferðamanna
„Þetta er alveg svakalega leiðinlegt að við skulum vera að missa þessa táknmynd, ég segi kannski Íslands að hluta til. Þetta er nú kannski það fyrsta sem fólk sér þegar það lendir í Keflavík á góðviðrisdegi og vekur athygli þína, það er jökullinn.“
Útsýni yfir jökulinn sé eitt það fyrsta sem heilli ferðamenn sem koma til Íslands. Margir leggi leið sína á Snæfellsnes til að sjá jökulinn enda sé hann þekktara kennileiti en fólk geri sér grein fyrir, sögufrægur og dulmagnaður. Kristinn segir að eftirsjá verði af jöklinum.
„Þetta er ekki skemmtilegt að þurfa að horfa á jökulinn svartan eftir þrjátíu ár, fjallið fer ekki neitt en jökulhettan mun að öllum líkindum hverfa. Þá höfum við bara vetrarsýnina, það verður bara snjór á veturna en yfir sumartímann verður jökulhettan farin. Það verður ekki gaman fyrir okkur.“
Margir ferðamenn fara á jökulinn
Nokkur ferðaþjónustufyrirtæki gera út ferðir á jökulinn, á ökutækjum eða gangandi. Ekki eru til útreikningar á efnahagslegum áhrifum ferðaþjónustu tengdri jöklinum á svæðið en Kristinn segir ljóst að þau séu umtalsverð þar sem aðdráttarafl hans sé mikið.
Bæjarstjórinn hefur þó ekki miklar áhyggjur af því að hop Snæfellsjökuls hafi alvarleg áhrif á ferðaþjónustu á Snæfellsnesi í heild þar sem náttúran þar sé engu að síður mögnuð og ferðamenn leggi leið sína þangað til skoða hana.
Á síðustu árum hafi fjölgun ferðafólks verið ævintýraleg í takt við fjölgun ferðamanna á landinu öllu. Um 900 þúsund ferðamenn fara um Vesturland á ári og sumarumferð um Snæfellsnes er meiri en ársumferð yfir Holtavörðuheiði.
Mikil uppbygging hefur verið í Snæfellsjökulsþjóðgarði á áningarstöðum og bæjarfélagið hefur einnig gert ýmislegt til að gera svæðið meira aðlaðandi fyrir ferðamenn sem hefur skilað sér án þess að áhrif á náttúru hafi verið of mikil.