„Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því. Þannig að það eru önnur vonbrigði. Svona gera menn ekki,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra um Klaustursmálið. Rætt var við hana í Kastljósi í kvöld.

Hún segist upplifa samtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, um hana sem árás. „Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn. Ég segi bara að þetta er alveg skýrt í minum huga. Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi.“

Lilja segir að hún hafi verið upptekin fyrstu dagana eftir að Klaustursmálið kom upp en á mánudag, þegar fleiri upptökur komu fram og það allra grófasta, þá hafi hún bognað. „Ég bara trúði þessu ekki. Að menn gætu talað með þessum hætti og ég bara vek athygli á því að þetta er algjört ofbeldi.“ 

Hún segir að hún hafi fengið gríðarlega mikinn stuðning frá samráðherrum og þinginu. „En ég vil líka að það sé alveg skýrt, þetta er óboðlegt, þetta er óafsakanlegt og við viljum ekki að íslensku samfélagi sé stýrt af svona fólki.“

Lilja segir að enginn þeirra hafi hringt í hana. „Bergþór Ólason hann hefur ekki einu sinni reynt að hafa samband við mig. Ég hef auðvitað sagt að þetta sé óafsakanlegt. Ég hef fengið skilaboð frá Sigmundi Davíð og Gunnari Braga og rætt reyndar við, svo ég talaði við Gunnar Braga. Þeir hafa ekki sett sig símleiðis í samband við mig, ekkert af þessu fólki.“ 

Gremjist að Framsókn sé í ríkisstjórn

Hún telur að þremenningunum gremjist að Framsóknarflokkurinn sitji í ríkisstjórn. „Og fólkið í landinu hefur verið að kalla eftir stöðugleika í stjórnmálum og það sem þessir ofbeldismenn eru að bjóða upp á er allt annað en stöðugleiki, eða vinsemd og að bera virðingu fyrir samborgurum sínum.“

Hvað finnst þér um viðbrögð þeirra í fjölmiðlum? Sigmundur Davíð og Anna Kolbrún Árnadóttir ætla að sitja áfram, Gunnar Bragi og Bergþór hafa tekið sér ótímabundið leyfi frá þingstörfum. Hvað finnst þér um þessi viðbrögð þeirra? „Mér finnst þeir sýna virðingarleysi. Mér finnst þeir ekki átta sig á alvarleika málsins. Ég held að sterkur einstaklingur hefði iðrast, hann hefði borið ábyrgð á því sem hann hefði sagt. Hann hefði gengið fram af meiri myndugleika.“ 

Undrast þakkirnar fyrir samstarfið

Lilja segir að hún hafi átt í farsælu samstarfi við Sigmund að stórum verkefnum og undrast þakkirnar. „Ég segi ef hann er að kvitta svona fyrir þetta samstarf, og það sem ég lagði á mig ásamt fullt af öðru fólki, að þetta séu þakkirnar, að þá eru það auðvitað vonbrigði. Ég viðurkenni það. Ég viðurkenni það líka að ég bognaði en ég ætla ekki að láta þetta brjóta mig. Ég ætla að halda áfram að sinna mínum störfum og skyldum. Þetta fær mig bara enn frekar að vera mjög ákveðin í því sem ég er að gera og hrinda framfaramálum af stað.“

Lilja segir allt stefna í að þremenningarnir verði hundsaðir í störfum þingsins. Sjálf muni hún eiga erfitt með að mæta þeim í þinginu. „Þeir eiga ekki að hafa þetta dagskrárvald. Þeir stýra okkur ekki. Þetta er ofbeldi og ég ætla, þó að þetta fái á mig, ég held áfram og allar aðrar konur og allir þeir sem lent hafa í þessu. Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því. Þannig að það eru önnur vonbrigði. Svona gera menn ekki.“

„Stórkostleg árás“

Lilja segir að hún hafi áttað sig á því hversu mikið málið fékk á hana þegar hún fann hvað henni þótti óþægilegt að sjá mynd sem einhver hafði deilt af Bergþóri á Facebook. „Þegar ég sá myndina, mér brá. Mér fannst bara óþægilegt að sjá andlitið á honum. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði orðið fyrir stórkostlegri árás. Ég sætti mig ekki við það. Þess vegna er ég líka að koma hérna. Margir hafa viljað ræða þessi mál við mig. Ég vil bara að það sé alveg á hreinu að þetta er óásættanlegt. Við viljum ekki að íslenskt samfélag sé svona. Þetta er líka fyrir dætur landsins og mæður. Við viljum ekki þurfa lesa svona um einhvern.“