Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur lengi ætlað sér að komast í valdastöðu. Þegar hann var spurður að því sem ungur drengur hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór, sagðist hann iðulega vilja verða „konungur heimsins“.
Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallaði um uppvöxt Borisar Johnson. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.
Boris, sem heitir fullu nafni Alexander Boris de Pfeffel Johnson, er fæddur 1964. Foreldrar hans voru í ágætum efnum en ekki af yfirstétt. Boris fékk þó skólavist í fínasta drengjaskóla Bretlands þrettán ára, Eton College, á grundvelli námsárangurs.
Hann hafði verið nokkuð hlédrægur og bókhneigður piltur lengi framan af en steig fram í Eton sem mikið félagsljón. Þar byrjaði hann líka að sýna ýmis persónueinkenni sem hann er þekktur fyrir enn í dag — dálítið klaufalegur og sérvitur, gjarnan lufsulega til fara og með úfið hárið, en þó mælskur og með leiftrandi skopskyn.
Boris hélt áfram að rækta þennan „karakter“ þegar hann hélt úr Eton í Oxford-háskóla. Þar fór hann líka að láta til sín taka í félagslífi stúdenta — enda, kannski, staðráðinn í að láta æskudraum sinn rætast um að vera konungur heimsins.
Hlustið á allan þáttinn um uppvöxt Borisar Johnson í spilaranum hér að ofan.
Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.