Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna segir að rafdreifikerfið á höfuðborgarsvæðinu geti annað vaxandi kröfum um rafmagn vegna orkuskiptanna. Gera megi ráð fyrir flöskuhálsum og nauðsynlegt sé að álagsstýra notkuninni en ekki þurfi að grafa upp borgina. Ríkisvaldið þurfi hins vegar að koma að málinu ef tengja á skemmtiferðaskip við rafmagn í höfnunum.
Kostar milljarð að koma leiða háspennu í hafnirnar
Fyrsta skemmtiferðaskipið, Astoria, kom til landsins í mars, í gær lagðist Marco Polo að bryggju á Akureyri og Celebrity Reflection í höfn í Reykjavík. Þetta er bara byrjunin því gert er ráð fyrir að skemmtiferðaskip leggist 199 sinnum að höfnum Faxaflóahafna í sumar með samtals um 188.962 farþega. Mikil mengun fylgir þessum skipum en gert er ráð fyrir rafvæðingu hafnanna í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið gaf út skýrslu í janúar um orkuskipti í íslenskum höfnum þar sem sérstök áhersla er lögð á raftengingu til skipa.
Veitur sjá um raforkudreifingu á höfuðborgarsvæðinu. Inga Dóra segir að Faxaflóahafnir séu tilbúnar fyrir rafvæðingu smærri skipa.
„En þegar við erum að tala um stærri skip að þá þurfa þau, til dæmis skemmtiferðaskip, þá þurfa þau mikinn straum í stuttan tíma. Og þær fjárfestingar eru kannski ekki hagkvæmar á venjulegan fjárhagslegan mælikvarða. Þannig að það þarf að byggja upp kerfið ef við erum að hugsa um stærri skipin og þar vonar maður að ríkisvaldið komi inn í og sérstaklega vegna þess að þau hafa eyrnamerkt fé í loftslagsmál í aðgerðaráætlun sinni. Og þau koma vonandi inn í þessi verkefni sem þarf til til þess að þetta veri mögulegt“
Ekki er hægt að tengja stór skip við þær tengingar sem eru í höfnum landsins núna. Þar er einungis gert ráð fyrir lágspennutenglum. Skemmtiferðaskip þurfa háspennu og til þess að það sé hægt verður að reisa aðveitustöð. „Og það er kannski fjárfesting upp á einn milljarð þannig að það er töluvert sem þarf að gera en þetta er alls ekki óyfirstíganlegt mál.“
„Þetta eru mjög sérstakar tengingar af því þetta er svo gríðarlegur straumur í stuttan tíma. Þetta er eins og að fá eitt bæjarfélag inn í mjög stuttan tíma og svo fer það bara.“
90 nýjar hleðslustöðvar á þremur árum
Inga Dóra segir að vel gangi með önnur orkuskipti.
„Vissulega er kerfið þannig að það geta verið vandamál á einhverjum stökum stað en í heild sinni er rafdreifikerfið vel í stakk búið til að takast á við orkuskipti í samgöngum hér á okkar svæði. Við bara fögnum fjölgun rafbíla og virkilega hvetjum til þess. Sem dæmi vorum við að gera samkomulag við Reykjavíkurborg um að leggja til tengingar í stöðvar eða hleðslustöðvar við vinnustaði í Reykjavík og eins í stæðum sem eru í hverfum þar sem er lítið um bílastæði inn á lóðum hjá fólki.“
Hleðslustöðvar við vinnustaði og í hverfum þar sem eru fá bílastæði verði vonandi til þess að fólk fái sér rafbíla.
„Hvað eru þetta margar stöðvar og hve hár er kostnaðurinn við þetta? Það eru eitthvað um 30 stöðvar og svo erum við að tala um inni í hverfunum 20 á hverju ári. Þannig að þessar stöðvar sem eru við vinnustaði, ég geri ráð fyrir að það sé eitthvað í kringum 25 milljónir. Þetta eru í rauninni um 90 stöðvar sem eru áformaðar á næstu þremur árum.“
Veitur sjá um að tengja hleðslustöðvarnar við rafmagn, borgin sér um yfirborðsfrágang og svo taka einhverjir aðrir að sér að setja upp stöðvarnar og reka þær.
Veitur ætla að setja upp ráðgjafaþjónustu á vef sínum þar sem fólk getur leitað upplýsinga og spurt spurninga um rafmagn, álag, hleðslur, hvernig á að álagsstýra og margt fleira.
Inga Dóra segir að engin stór vandamál hafi komið upp vegna vaxandi kröfu um raforku vegna orkuskiptanna.
„Ef ég svara bara fyrir rafdreifikerfið þá stendur það sterkt til að anna þessari aukningu sem við sjáum fram á en hins vegar þarf að byggja upp á einhverjum stöðum þar sem eru flöskuhálsar. En svo erum við náttúrlega líka að horfa til þess að álagsstýra notkuninni. Þannig að til dæmis með rafbíla að fólk stingi í samband og hlaði rafbílinn þegar önnur notkun er lítil. Þannig að það er eiginlega „win win“ fyrir alla aðila að við getum minnkað þessa uppbyggingaþörf og álagsstýrt þannig að notkunin verður jafnari yfir sólarhringinn.
Erum við þá ekki að sjá fram á tíma þar sem álagið verður það mikið að rafmagnið fer af? Nei, en eins og ég sagði áðan þá gæti verið mjög staðbundið vandamál ef allir í botlanganum fá sér Teslu. Þá gætum við verið að horfa á einhver staðbundin vandamál í því og þá þurfum við kannski að fara í einhverjar styrkingar á kerfum á þeim stöðum.
Við erum alls ekki að fara að grafa upp borgina til þess að gera það. “