Tuttugu ár eru frá því Dísarfell, flutningarskip Samskipa, fórst um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði. Tíu mönnum var bjargað um borð í TF-LÍF en tveir menn fórust. Þrjú sjóslys urðu dagana 5. til 11. mars 1997 og var 39 mönnum bjargað í þessum slysum.

Dísarfell var flutningaskip í eigu Samskipa. Um borð í skipinu voru 420 gámar og farmurinn vó 4.100 tonn. Rétt fyrir klukkan fjögur aðfaranótt 9. mars 1997 barst tilkynning til Landhelgisgæslunnar um að slagsíða væri komin á skipið. Talið er að leki hafi komið að því og hallaði skipið um 20-30 gráður. 

Talið var að leki hafi komið að skipinu og þegar það var um 100 sjómílur suðaustur af Hornafirði, miðja vegu milli Íslands og Færeyja, tók því að halla. Tæpri klukkustund síðar var hallinn orðin um 60 gráður og Dísarfell sendi út neyðarkall. Var þá ákveðið að senda þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn. 

Börðust um í sjónum í tvær klukkustundir

Þegar Dísarfellið lagðist á hliðina komust skipverjar á síðu skipsins. Þar höfðust þeir við þar til stór alda kom á skipið og skolaði þeim í sjóinn. Tólf voru í áhöfn og börðust þeir í sjónum í um tvær klukkustundir áður en TF-LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á staðinn. Þá voru tveir skipverjanna látnir.

„Það er ekki hægt að lýsa því þegar þyrlan birtist. Það var eins og almættið kæmi þarna og rétti okkur hjálparhönd,“ sagði Valdimar Sigþórsson, háseti á Dísarfelli, í samtali við Morgunblaðið 11. mars 1997. Hann sagði að skipverjar á Dísarfellinu hefðu á yfirvegaðan hátt tekist á við erfiðleikana. Strax í upphafi hefði verið ákveðið að allar ákvarðanir yrðu teknar sameiginlega og menn reyndu að halda hópinn eftir að þeir lentu í sjónum. Valdimar sagði að skipverjar hefðu strax áttað sig á því að þeir kæmust ekki í björgunarbátana sem rak með skipinu og að gámum og öðru braki sem var í sjónum. Ef þeir hefðu reynt það væru þeir líklegast ekki á lífi.

Þyrlan bjargaði 39 manns á sex dögum

Nokkrum dögum áður en Dísarfellið fórst, eða 5. mars 1997, strandaði Víkartindur við Þjórsárósa. Þá var 19 mönnum bjargað um borð í TF-LÍF en bátsmaður á varðskipinu Ægi fórst. Þann 11. mars 1997 rak Þorstein GK vélarvana upp í Krísuvíkurberg og bjargaði áhöfn TF-LÍFar - 10 manna áhöfn. Það má því segja að dagarnir 5.-11. mars 1997 hafi verið viðburðarríkir hjá áhöfn þyrlunnar sem bjargaði 39 manns á sex dögum, á köflum við afar erfið skilyrði.