„Lát oss ekki falla í freistni“ kemur í stað „eigi leið þú oss í freistni,“ verði boðaðar breytingar páfans á Faðirvorinu að veruleika. Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, segir túlkun á fornum textum trúarinnar langtímaverkefni. Þýðingar þurfi að túlka inn í nýja tíma og breytingar verði alltaf umdeildar. Með breytingunni túlki páfinn Faðirvorið inn í 21. öldina.
Fregnir bárust af því í síðustu viku að páfinn hefði lagt blessun sína þessa umdeildu breytingu á Faðirvorinu.
Tvö ár eru síðan páfi lýsti því yfir í viðtali að hann hefði áhuga á að breyta þessari tilteknu setningu í bæninni. Hann sagði þýðinguna ekki góða því hún gæfi til kynna að drottinn leiddi manninn í freistni en réttara væri að fólk falli sjálft í freistni en drottinn reisi það á fætur eftir fallið. Breytingin var samþykkt á allsherjarþingi kaþólskra biskupa á Ítalíu í maí.
Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1. Þar ræddi hún mögulegar breytingar á Faðirvorinu.
„Faðirvorið byggir á texta Nýja testamentisins. Grunnurinn að Faðirvorinu er tekinn úr Matteusarguðspjalli, 6. kafla. Það er mjög skiljanlegt að fólk stoppi við þessa hugmynd að það eigi að fara að hrófla við þessum forna texta en við skulum ekki gleyma því að öll þýðing er túlkun, við erum alltaf að túlka.“
Þeir sem stundi guðfræði séu stöðugt að túlka þessa fornu texta inn í nýja tíma.
„Allar þýðingar eru að sjálfsögðu túlkun og allar breytingar á þýðingum eru umdeildar, það er bara þannig. Þegar Nýja testamentið var fyrst þýtt yfir á íslensku af Oddi Gottskálkssyni voru ákveðnar forsendur fyrir þeirri þýðingu og síðan hafa margar þýðingar komið fram.“
Arnfríður segir að það hafi til að mynda verið afar umdeilt þegar rætt var að málfar yrði lagað að svokölluðu máli beggja kynja. Fólk hafi gagnrýnt að hróflað yrði við kæru bræður frá Páli postula og þess í stað sett systur og bræður eða systkin.
„En að sjálfsögðu eru forsendurnar þær að þetta er ekki gert út í loftið og þetta er ekki gert til að stunda pólitíska réttsýni.“
„Við erum ekki bara að varðveita einhverjar fornbókmenntir. Við erum að tala um texta sem er trúarbók. Allir þessir textar í Gamla og Nýja testamentinu sem eru skrifaðir á mjög löngum tima og endurspegla mjög ólíkt sögulegt samhengi, við erum að túlka það inn í 21. öldina og það er það sem að ég sé páfa vera að gera hér,“ segir Arnfríður.
Hlusta má á Arnfríði ræða breytingarnar við Jóhann Hlíðar Harðarson í Morgunvaktinni á Rás 1 í spilaranum hér að ofan.