Blóm eru áberandi á sumarsýningum Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum sem opnaðar voru um síðustu helgi. „Get ekki teiknað bláklukku“ er heiti á sýningu á blómamyndum Kjarvals sem Eggert Pétursson listmálari er sýningarstjóri yfir, en sýningin á verkum Sölva Helgasonar, eða Sólons Íslandusar, heitir „Blómsturheimar“ og þar er sýningarstjórinn Harpa Björnsdóttir myndlistarmaður.
„Hann málar blómin af ástríðu, það er ósköp einfalt mál,“ segir Eggert Pétursson listmálari þegar hann er spurður um það hvernig blómamálari Jóhannes Kjarval hafi verið. „Hann horfir vissulega ofan í jörðina, er þekktur fyrir að mála grjót, mosa og uppblásinn mel en tekur svo blómin oft fyrir með ýmsum hætti.“
Sýningin á Kjarvalsstöðum er þrískipt. Þar gefur að líta blómalandslag, fantasíur og uppstilltari blómamyndir Kjarvals, sem hann málaði oft til að þakka fyrir blóm og gjafir sem fólk gaf honum, til dæmis á stórafmælum. Eggert ákvað að flokka verkin eftir efnisþáttum og myndrænum skyldleika og val hans á verkum er fremur hugsað til að mynda heillega sýningu en að sýna sögulegt yfirlit blómaverka Kjarvals.
Sjálfum sér líkur
Eggert segir jafnframt að oft megi finna húmor og sprell í blómamyndum meistarans. „Kjarval er alltaf sjálfum sér líkur í þessum verkum og kemur áhorfandanum oft á óvart,“ segir Eggert og nefnir sem dæmi bláber í yfirstærðum í hundrað ára gamalli mynd af berjalyngi.
„Ég mátti gera það sem mér sýndist og hafði frjálsar hendur en ég byrjaði á því að skoða safneignina og valdi svo síðan út það sem snéri að mér og minni hugsun og verki. Mér fannst það eðlilegast enda hafði ég alltaf verið forvitinn um Kjarval og blóm. Margir höfðu sagt mér frá ýmsum blómamyndum hans og mig langaði að skoða þetta. “
Umhverfisvernd Kjarvals
Eggert bendir á að Kjarval hafi verið langt á undan samtíma sínum í ýmsu því sem snéri að umhverfismálum. „Hann var hvalfriðunarsinni og vildi láta byggja hvalfriðunarskip. Í mörgum síðustu verkum hans eru andlit í landslaginu, sem mörg hver voru hugsuð eins og andar í landinu og loks talaði hann um gírugheitin í manneskjunni og grimmdina og hann talaði fyrir nægjuseminni.
Blómin hans Sölva
Sölvi Helgason, eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, var flakkari, fræðimaður og listamaður, en líka kenjóttur sérvitringur sem var á skjön við samtíma sinn. Hann er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið, heillandi utangarðsmaður í lífshlaupi sínu og listsköpun. Harpa Björnsdóttir, myndlistarmaður, er sýningarstjóri sýningarinnar Blómsturheimar á verkum Sölva. Harpa segir Sölva hafa fléttað sínar blómamyndir saman á ótrúlega fjölbreyttan hátt.
Sumar mynda Sölva þóttu nokkuð dónalegar á sínum tíma, einkum þegar hann ákvað að gera myndir af embættismönnum sem hann átti sökótt við. Yfirvöld höfðu miklar áhyggjur af fólki sem flakkaði um landið á þessum tíma. „Ég er viss um að Sölvi myndi ekki þykja jafn erfiður í dag og hann þótti þá. Hann vildi bara fá að fara um og enginn hafði skilning á því sem hann vildi gera, leggja stund á sköpun sína og listir. Hann þótti einfaldlega bara latur.“
Sá fyrsti frjálsi
Harpa hefur skoðað list Sölva á síðustu átta árum í tengslum við sýningarhald, til dæmis við Safnasafnið. „Það rann bara upp fyrir mér að hann er kannski fyrsti algjörlega frjálsi myndlistarmaðurinn á Íslandi. Honum hefur verið ýtt til hliðar, hann er naivisti og hann fór aldrei í skóla, en það sem hann gerði spratt úr hans eigin hugarheimi. Blómin eru ekki íslensk heldur úr hans fantasíu heimi. “