Í dag eru 30 ár liðin frá því að alþýðuherinn braut á bak aftur lýðræðishreyfingu ungs fólks á torgi hins himneska friðar í Peking. Torgið breyttist í blóðvöll, og þremur áratugum síðar sýna stjórnvöld engin merki þess að ætla að rétta hlut fórnarlambanna. Í Kína er bannað að nefna þessa atburði. Þeir eiga að gleymast.
Friðrik Páll Jónsson flytur pistla í Samfélaginu á Rás 1 á þriðjudögum.
Ungt fólk í Kína veit lítið um það sem gerðist í júní 1989. Lítil sem engin fræðsla er um það í skólum og ekki má fjalla um það í opinberri umræðu. Samfélagsmiðlar eru ritskoðaðir, ennfremur bókaútgáfa og allar heimildir eins og ljósmyndir. Hún er ekki til sýnis í Kína fræg ljósmynd af ungum manni með innkaupapoka sem stillir sér upp fyrir framan nokkra skriðdreka til þess að stöðva för þeirra. Ekki er vitað hvað varð um unga manninn. Var hann handtekinn, fangelsaður eða tókst honum að hverfa á braut?
Þöggunin felst líka í því að veita ekki aðgang að skjalasöfnum. En utan Kína koma enn út margar bækur með frásögnum og ljósmyndum sjónarvotta. Kínverskur ljósmyndari sem tók 2000 myndir af atburðunum setti þær nýlega í stafrænt form til dreifingar, þegar hann komast að því að dóttir hans vissi ekkert um það sem hafði gerst.
Deng Xiaoping upphafsmaður efnahagsbyltingarinnar sem hófst í Kína fyrir 40 árum og hefur gert Kína að öðru mesta efnahagsveldi heims var árið 1989 formaður hinnar voldugu hermálanefndar í Kína. Hann er sagður hafa fyrirskipað árásina á mannfjöldan á torginu. Það urðu deilur á meðal herforingja. Nokkrir mótmæltu en þeim var vikið frá. Talið er að um 200.000 hermenn, þarf af margir utan af landi hafi tekið þátt í aðgerðunum. Stjórnvöld óttuðustu að mótmælahreyfingin myndi magnast og dreifast út um landið. Það voru útifundir í fjöldi annarra borga en mannfjöldinn var mestur í Peking. Það hvarflaði ekki að unga fólkinu að alþýðuherinn yrði sendur inn í höfuðborgina til að skjóta á alþýðuna.
Fyrir tveimur árum var birt skjal sem varðveitt er í þjóðskjalasafni Bretlands. Það er lýsing Alans Donalds sem var sendiherra Breta í Pening á þessum tíma, á atburðunum. Yfirboðarar hans fengu skýrsluna daginn eftir, 5. júní 1989. Lýsingin er höfð eftir manni sem ekki er nafngreindur en er sagður vinur háttsetts manns í stjórnkerfinu. Skýrslunni lýkur með þeim orðum að 10.000 óbreyttir borgarar að lágmarki hafi beðið bana í árásinni.
Þar segir að þegar herinn kæmi að torginu hafi fólk haldið að það fengið eina klukkustund til að rýma hið risa stóra torg en fresturinn var aðeins nokkrar mínútur. Skotið var á mannfjöldann og skriðdrekar óku inn á torgið á fólk og yfir það. Í skýrslunni segir að sumir í ríkisstjórninni hafi talið borgarastyrjöld yfirvofandi.
Lýðræðishreyfingin hófst um miðjan apríl. Spillingu var mótmælt, krafist var aukins gagnsæis í stjórnsýslu að lögreglan væri ekki með stöðugt eftirlit með borgurunum. Kröfur voru um þróun í lýðræðisátt. Það var krafa um að Kommúnistaflokkurinn myndi bæta sig, standa sig betur. Ekki krafa um að hann léti af völdum, sagði einn stúdentaleiðtoginn.
Útskýringar stjórnvalda hafa ekki breyst í 30 ár. Þau halda því fram að gangbyltingarmenn hafi stjórnað Lýðræðishreyfingunni. Andstaðan hafi beinst að Kommúnistaflokknum. En fordæming stjórnvalda varð til þess að stuðningur við hreyfinguna jókst. Unga fólkið hóf mómælasvelti 13. maí og viku síðar voru sett herlög að skipun Deng Xiaopings og árásin hófst svo aðfararnótt 4. júní.
Breski sendiherrann hefur eftir heimildarmönnum sínum að 10.000 óbreyttir borgarar að lágmarki hafi beðið bana. Stjórnvöld í Peking segja að 300 hafi týnt lífi. Kínverskur fræðimaður í Hong Kong segist hafa rannsakað málið, meðal annars gögn frá 80 sjúkrahúsum í Peking. Hann telur að 2.600 manns hafi verið drepnir. Það er einnig mat Rauða krossins.
Gæti ný lýðræðishreyfing myndast í Kína?
Sumir telja að stóraukið stafrænt eftirlit yfirvalda með þjóðinni geri það erfitt. Aðrir telja það ekki útilokað. Fylgst er með yfirlýstum lýðræðissinnum í Kína. Margir hafa verið fangelsaðir, sendir í endurhæfingarbúðir eða hrökklast úr landi. Kínastjórn nýtur mikils stuðnings landsmanna og ástæðan er langvarandi mikill hagvöxtur sem hefur lyft hundruðum milljóna Kínverja úr fátækt. En staðan gæti breyst ef hagvöxtur minnkar. Óánægja kynni þá að magnast. Skilaboð Deng Xiaopings voru að fólkið fengi efnahagsfrelsi og hagvöxt en ekki pólitískt frelsi.
Hægt er að hlýða á pistil Friðriks Páls í heild í spilaranum hér að ofan.