Flestir sem eru óvanir á skíðum eiga fullt í fangi með að komast áfallalaust niður brekkurnar þótt þeir sjái alveg hvert þeir eru að fara. Unga fólkið í blindrafélaginu lætur sig hinsvegar ekki muna um að skíða blindandi niður brekkurnar í Skálafelli.

Um síðustu helgi stóð blindrafélagið fyrir skíðahelgi í Skálafelli fyrir sjónskert og blind ungmenni. Þetta er í þriðja sinn sem svona viðburður er haldinn en áður hefur það verið gert í Hlíðarfjalli á Akureyri. 

Iva Marín Adrichem er alveg blind en hún segir að skíðamennska sé kannski ekki eins mikil áskorun fyrir blinda eins og margir kunni að halda. „Nei þetta er ekkert mál. Maður þarf bara að treysta á skíðakennarann sem segir manni hvert maður á að beygja. Það erfiðasta er bara harðsperrurnar daginn eftir,“ segir Iva Marín.

Landinn skellti sér á skíði með krökkunum í blindrafélaginu. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. Landinn er einnig á Facebook sem og á YouTube og Instagram: #ruvlandinn.