Tatjana Latinovic var í byrjun maí kosin nýr formaður Kvenréttindafélags Íslands. Hún er fyrsti formaður í 112 ára sögu félagsins sem er af erlendu bergi brotin, en Tatjana er frá Króatíu og flutti hingað til lands árið 1994.
Tatjana segir að helstu baráttumál Kvenréttindafélagsins taki stöðugum breytingum í takt við þróun samfélagsins. Almennt talað berjist Kvenréttindafélagið fyrir sjálfsögðum mannréttindum og jafnrétti.
Hún segir að sér sé í blóð borið að láta sig mannréttindi varða, þannig hafi hún alltaf verið, líka áður en hún flutti hingað til lands árið 1994.
Tatjana er ein af stofnendum Samtaka kvenna af erlendum uppruna sem voru stofnuð árið 2003. Hún segir að stofnun þeirra samtaka hafi verið aðkallandi, margar konur sem hingað flytjist hafi ekki átt sér rödd eða málsvara.
Hún segir að bæta þurfi íslenskukennslu fyrir útlendinga hér á landi, gera hana markvissari svo að fólk sem flytjist hingað til lands verði fyrr fært um að gera sig skiljanlegt og bjarga sér á Íslandi. Það sé öllum í hag, ekki síst tungumálinu sjálfu, því fleiri sem tali íslensku því meiri líkur eru á að málið lifi af.
Tatjana hefur nú þegar þýtt átta íslensk skáldverk sem komið hafa út í Serbíu og Króatíu og hún vinnur nú að þýðingu nokkurra verka. Hún segir mikinn áhuga á íslenskum bókmenntum á Balkanskaga.
Tatjana var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 og hægt er að hlusta á viðtalið við hana í spilaranum hér að ofan.