David Bowie gefur í dag, afmælisdegi sínum, út sína 26. hljóðversplötu. Hún heitir Blackstar og hefur þegar fengið frábæra dóma í fjölmiðlum víða um heim.
Plötuna vann Bowie meðal annars í samstarfi við bandaríska jazz-saxófónleikarann Donnie McCaslin, og sinn gamla upptökustjóra, Tony Visconti. Hún er mun tilraunakenndari en síðasta plata Bowie's, The Next day, sem kom út, öllum að óvörum árið 2013, og þykir kallast á við sum þekktustu verk Bowie's frá áttunda ártugnum, til dæmis plöturnar Station to Station frá árinu 1976 og Low frá árinu 1977. Víðsjá gaf forsmekkinn að Blackstar og sendi afmæliskveðju vestur til Bandaríkjanna, nánar tiltekið alla leið til Lafayette street númer 285 þar sem afmælisbarnið býr og starfar.