Hinseginleikinn er víða og á næstu vikum mun Ingileif kafa ofan í hinar ýmsu hliðar hans og tala við áhugavert fólk í nýjum hlaðvarpsþætti hjá RÚV núll. Hinsegindagar hér á landi hafa vaxið og dafnað í gegnum árin og eru orðnir órjúfanlegur hluti okkar menningar. Í fyrsta þætti Hinseginleikans ræðir Ingileif við Pál Óskar Hjálmtýrsson.
Sagan sem þátturinn hefst á er saga sem ekki má gleymast. Saga af fólki sem allt hinsegin fólk má þakka fyrir að ruddi brautina, En saga hátíðarinnar og baráttunnar hér á landi er saga sem ekki má heldur gleymast. Þau sem á undan komu og ruddu brautina og gerðu það að verkum að við stöndum hér í dag, einna fremst á meðal þjóða í félagslegum réttindum hinsegin fólks, segir Ingileif.
Gleðigangan er orðinn árlegur viðburður hér á landi. Páll Óskar Hjálmtýsson hefur tekið þátt frá upphafi, 1999. Þorvaldur Kristinsson bókmennta- og kynjafræðingur hafði samband við Palla og vildi fá hann til að vera með hóp til að skipuleggja hátíðarhöld í tilefni af 30 ára afmæli Stonewall-uppþotanna. Ætlunin var að búa til litla dagskrá á Ingólfstorgi.
„Ég perónulega átti von á að á Ingólfstorgi þarna 1999 yrðu 200 skeiterar, unglingar með buxurnar á hælunum að horfa á skemmtidagskrá sem þeim væri nákvæmlega sama um. Svo byrjar dagskráin og dagurinn er runninn upp og það mættu 1200 manns.“
Svo árið 2000 var ákveðið að fara í göngu. Safnast var saman við lögreglustöðina á Hlemmi og svo gengið niður Laugaveginn.
„Ég mun aldrei, svo lengi sem ég lifi, gleyma augnablikinu þegar gangan fór af stað og fer af Hlemmi og beygir inn á Laugaveginn,“ segir Páll Óskar.
Þeir höfðu ekki hugmynd um hvort nokkur sála myndi mæta og fylgjast með göngunni fyrir það fyrsta. Svo þegar leðurtrukkurinn beygir niður Laugaveginn var alls konar fólk úr öllum áttum og öllum stéttum þjóðfélagsins búið að raða sér beggja vegna götunnar svo langt sem augað eygði.
Í tilefni 20 ára afmælis Hinsegin daga og 50 ára afmælis Stonewall-uppþotanna ætlar Ingileif Friðriksdóttir að fjalla um hinseginleikann í allri sinni dýrð í 6 þátta hlaðvarpsseríu. Hlustaðu á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.