Íslendingar búa sig undir að auka móttöku flóttamamanna um þriðjung á næstu tveimur árum. Þetta kom fram í ræðu Ragnhildar Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis á alþjóðaþingi um flóttamannavandann sem nú er haldið í fyrsta sinn í Genf.
Jón Björgvinsson skrifar frá Genf í Sviss
Á þessu ári var tekið á móti 74 flóttamönnum á Íslandi, en á næsta ári bjóðast íslensk stjórnvöld til að taka á móti 85 manns, sem líkt og í ár koma einkum úr hópi Sýrlendinga og viðkvæmra flóttamanna vegna kynferðis eða fjölkylduaðstæðna frá Kenía.
Í ár settust þessir nýju íbúar að á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Blönduósi og á Hvammstanga og var myndum af þeim við snjómokstur þar dreift á flóttamannaþinginu. Árið 2021 er áætlað að taka við enn fleirum eða 100 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, en ekki liggur fyrir hvaðan þeir munu koma.
Samkvæmt upplýsingum Lindu Rósar Alfreðsdóttur, sérfræðings í félagsmálaráðuneytinu, sem situr nú Flóttamannaþingið í Genf varð líka gífurleg fjölgun á þeim sem hlutu alþjóðlega vernd á Íslandi á þessu ári. Af um 770 umsækjendum hafa nú 311 hlotið alþjóðlega vernd það sem af er árinu á Íslandi samanborið við 160 allt árið í fyrra. Hælisleitendum frá Albaníu hefur fækkað en hins vegar varð gífurleg aukning á hælisleitendum frá Venesúela og eru þeir stærsti hópur þeirra sem hlutu alþjóðlega vernd á Íslandi á árinu.
Þá tilkynnti sendinefnd Íslands á alþjóðaflóttamannaráðstefnunni í Genf að samkvæmt nýjum rammasamning við Alþjóðaflóttamannastofnunina muni Íslendingar reiða fram samtals um 250 milljónir króna til stofnunarinnar á næstu fjórum árum auk aukaframlags upp á 25 milljónir nú til neyðarverkefna.
Alþjóðaþinginu um flóttamannavandann er ætlað að koma saman á fjögurra ára fresti til að létta birgði af þeim löndum sem flóttamenn streyma einkum til, bæta móttöku og lífsskilyrði flóttamanna og tryggja öryggi þeirra sem snúa aftur til síns heima.
Samkvæmt tölum Flóttamannsstofnunar Sameinuðu þjóðanna eru nú 70 milljónir jarðarbúa á flótta ýmist yfir landamæri eða innan eigin lands og hefur sú tala aldrei verið hærri.
Í opnunarræðu sinni varaði António Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna við múrum og lokuðum dyrum sem nú mæta flóttamönnum og hælisleitendum í vaxandi mæli og mannréttindabrotum gegn flóttamönnum sem birtast jafnvel í því að börn eru handtekin og skilin frá fjölskyldum sínum.