Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að svo geti farið að hann skili stjórnarmyndunarumboðinu, skili samtöl hans við formenn annarra flokka ekki árangri fyrir helgi. Hann segir útséð um samstarf við Vinstri græn eftir samtöl við flokkinn.
Bjarni gekk á fund forseta Íslands í gær og gerði honum grein fyrir stöðu mála og þeirri fyrirætlan hans að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður fyrir lok þessarar viku. Bjarni fundaði með þingflokki sínum í Valhöll í hádeginu í dag og það er ekki hægt að segja að hann hafi slegið tón bjartsýni um stjórnarmyndun að honum loknum. Í spilaranum hér að ofan má sjá ítarlegt viðtal við Bjarna sem var tekið strax að fundinum í Valhöll loknum.
„Það er töluvert mikil gjá víða á milli manna en nú ætla ég að halda þessum samtölum áfram og sjá hvort það er grundvöllur til þess að hefja eiginlegar stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka. Og ég ætla bara að halda því til haga að ég er ekkert að hugsa ákveðið eitt umfram annað í því, en ella verð ég að segja þetta gott í bili og skila umboðinu, það getur verið veruleiki sem við bara horfumst í augu við,“ segir Bjarni.
En væri það ekki nokkurn veginn áfall fyrir þig að fara að skila umboðinu?
„Ég hef aldrei litið á þetta sem mikið persónulegt metnaðarmál að vinna að þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Maður er auðvitað í þessu til að vinna fyrir heildina og það þarf að vera hægt að mynda hér starfhæfa ríkisstjórn.“
Gott samstarf við Framsókn
Bjarni segir að kosningaúrslitin hafi boðið upp á frekar þrönga stöðu og að margir hafi verið fljótir að útiloka samstarf í ýmsar áttir. Hann segir ekki ljóst hvaða flokkum hann muni bjóða til formlegra viðræðna en ef það gerist verði það öllum ljóst.
Var andstaða á þingflokksfundinum við samstarf við Bjarta framtíð og Viðreisn?
„Nei ég myndi ekki segja að það hafi verið andstaða en við vissulega ræddum áskoranir sem gætu verið í því að við gerðum það.“
Langar þig að taka Framsókn að borðinu?
„Ég hef haldið góðu samstarfi við Framsóknarflokkinn alveg fram á þennan dag og vil halda góðu samstarfi við Framsóknarflokkinn áfram.“
En hvað með VG?
„Já við höfum rætt saman nokkrum sinnum og ég tel að það sé orðið útséð með að hefja einhverjar viðræður á milli flokkanna,“ segir Bjarni.