Óánægja meðal Sjálfstæðismanna með þriðja orkupakkann breytir engu um stefnu flokksins í málinu. Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður flokksins. Hann furðar sig á tímasetningu undirskriftasöfnunar gegn orkupakkanum.

Boðað var til opins fundar með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í Reykjavík í morgun. Á fundinum gafst gestum færi á að spyrja Bjarna spurninga. Töluverð ólga er innan Sjálfstæðisflokksins vegna innleiðingar þriðja orkupakkans og hefur undirskriftasöfnun verið hrundið af stað meðal flokksmanna, til að knýja á um atkvæðagreiðslu um málið. Nokkuð margar fyrirspurnir í dag lutu að því máli. 

Hver eru þín viðbrögð við þessari undirskriftasöfnun innan flokksins um þriðja orkupakkann?

„Það er bara þannig að skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir þessu. Og mín viðbrögð eru þau að svona mál verða bara að hafa sinn gang,“ segir Bjarni.

„Viðkvæmt mál“

Jón Kári Jónsson, formaður félags Sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík, sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni, segir að óánægja sé innan flokksins með málið.

„Já ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að menn hafi séð það á þessum fundi að það eru ansi skiptar skoðanir.“

Bjarni segir hins vegar að þessi óánægja breyti engu um stefnu forystu flokksins í málinu. „Nei, hún breytir ekki neinu um stefnu þingflokksins.“

Bjarni segist furða sig á tímasetningu undirskriftasöfnunarinnar, enda eigi málið rætur sínar að rekja til ársins 2013, auk þess sem það hafi fengið endanlega meðferð á Alþingi.

En þessi undirskriftasöfnun, ber hún ekki vott um óánægju innan flokksins um stefnu forystunnar í þessu orkupakkamáli?

„Ja, þetta er einfaldlega bara viðkvæmt mál. Við vitum alveg að það eru margir flokksmanna uggandi yfir orkumálunum í stóru samhengi og þess vegna höfum við tekið góðan tíma í að undirbúa málið.“

Lýðræðisleg niðurstaða

Náist 5.000 undirskriftir er miðstjórn flokksins skylt að láta fara fram almenna kosningu meðal flokksmanna um málið. 

Hvernig gengur undirskriftasöfnunin?

„Hún gengur mjög vel. Ég hef engar tölur fyrir þig en ég get sagt að hún gengur mjög vel,“ segir Jón Kári.

Hverju viljið þið að þessi undirskriftasöfnun skili?

„Helst bara lýðræðislegri niðurstöðu innan flokksins um hvað flokksmenn vilja í þessu efni.“

„Það liggur alveg fyrir að það væri aldrei nema ráðgefandi kosning þannig að ég sé ekki að það breyti neinu,“ segir Bjarni.