Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist ekki hafa átt aðkomu að því þegar Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, fékk uppreist æru í september síðastliðnum. „Nei, ég tók við niðurstöðu úr ráðuneytinu sem hafði fengið sína hefðbundnu meðferð.“ Hann hallast að því að almenningur vilji samfélag þar sem fólk fær annað tækifæri.
Robert var starfandi lögmaður þegar Hæstiréttur dæmdi hann í þriggja ára fangelsi árið 2008 fyrir að brjóta gegn fjórum stúlkum á aldrinum fjórtán og fimmtán ára. Þá missti hann lögmannsréttindi sín. Hæstiréttur ákvað í gær að Robert skyldi fá lögmannsréttindi sín aftur og vísaði til þess að forseti hefði veitt honum uppreist æru í september að tillögu innanríkisráðherra.
Lög til að menn geti endurheimt borgaraleg réttindi
„Lögin sem um þetta efni fjalla eru nú ekki alveg ný af nálinni,“ segir Bjarni um hvernig staðið er að uppreist æru. „Þau gera mun á vægari brotum og alvarlegri og í tilfelli vægari brotanna er það sjálfgefið að menn fá uppreist æru eftir fimm ár en geta látið reyna á það fyrr ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði. Þegar um alvarlegri brot er að ræða er fyrst hægt að láta reyna á uppreist æru eftir fimm ár. Þá fer það í ákveðið ferli sem er í mjög föstum skorðum. Það má segja um þetta að lög á Íslandi gera alveg ótvírætt ráð fyrir því, að uppfylltum tilteknum skilyrðum að menn geti aftur fengið uppreist æru þrátt fyrir að hafa hlotið nokkuð alvarlega dóma. Í því fellst að menn geta aftur endurheimt ýmis borgaraleg réttindi.“
Guðni Th. Jóhannesson forseti sagði í samtali við RÚV í morgun að málið væri ömurlegt og að hann sjái ekki hvernig samfélagið hafi gagn af því að Robert snúi aftur til fyrri starfa sem lögmaður.
Viljum samfélag sem gefur fólki annað tækifæri
„Ég held að menn þurfi að vega saman tvo hluti. Það er annars vegar réttarvörslukerfið okkar og refsilöggjöfin. Við skulum ekki gleyma því að það er enginn að tala um það að menn eigi ekki að taka út sína refsingu hér. Og síðan hitt, með hvaða hætti við ætlum að hafa opið fyrir það að menn geti aftur öðlast borgaraleg réttindi eftir að þeir hafa tekið út sína refsingu. Það verður að gera skýran mun á þessu og fyrirbærinu náðun, þar sem menn eru náðaðir af refsingu sem þeir hafa verið dæmdir til. Þetta er allt annað sem við erum að ræða hér. Ég myndi frekar hallast að því að í okkar samfélagi viljum við gefa fólki tækifæri aftur í lífinu, sem hefur tekið út sína refsingu. Við getum ekki látið tilfinningar kannski ráða of miklu í þeim efnum. Með þessu er ég ekki að gera neinn mun á einstökum brotum eða einstaklingum. Við viljum einfaldlega búa í samfélagi sem gerir ekki upp á milli fólks á grundvelli slíkra hluta þegar um borgaraleg réttindi er að ræða.“
Leiðrétt: Fréttastofa spurði Bjarna um aðkomu hans að málinu í júní síðastliðnum. Þá sagðist hann ekki hafa haft aðkomu að ákvörðuninni, en hinsvegar tekið við niðurstöðunni þegar málið hafði fengið hefðbundna meðferð í ráðuneytinu. Mátti þá skilja hann sem svo að hann hafi verið starfandi innanríkisráðherra, enda hafði hann áður leyst Ólöfu Nordal af vegna veikinda hennar. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu átti Bjarni við í viðtalinu að hann hafi tekið við niðurstöðunni á ríkisstjórnarfundi eins og aðrir ráðherrar.