„Ég hugsa að ég hefði nú verið brennd á 17. öld, vakið grunsemdir,“ segir Ólína Þorvarðardóttir. Hún var á dögunum var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bók sína Lífgrös og leyndir dómar – lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi, þar sem hún segir frá fornum lækningaaðferðum og -jurtum á Íslandi.
„Ég hef áhuga á lækningajurtum og hugarorkunni, ýmsu óhefðbundnu. Ég myndi ekki segja að ég sé praktíserandi galdrakona en ég hef áhuga á göldrum sem menningarfyrirbæri og hugmyndasögunni í kringum þá,“ segir Ólína sem var gestur Sigurlaugar M. Jónasardóttur í Segðu mér. „Ekki síst vegna þess hvað hlaust margt illt af tortryggninni og hugmyndaágreiningnum í kringum kristna trú og heiðna þjóðmenningu, sem var útlistuð sem djöfulsfræði og galdrar. Og varð til þess að þúsundir manna brunnu á báli um alla Evrópu í galdraofsóknunum.“ Ólína er vel kunnug efninu enda skrifaði hún fyrir tæpum 20 árum doktorsritgerð um galdraofsóknir á Íslandi á 17. öld. „Ég áttaði mig á því þegar ég fór að skoða dómskjöl og fleira að í langflestum tilvikum var fólk dæmt sem galdramenn/nornir fyrir lækningaviðleitni. Að reyna eftir frumstæðum aðferðum og á því þekkingarstigi sem fólk var statt, að reyna að hjálpa náunganum, bæta líf sitt og annarra.“
Ólína segir fólk hafa reynt að lækna hvert annað með galdrastöfum, særingum og formúlum í bland við raunlækningar eins og notkun grasa og ýmis hollusturáð. „Lækningabækur á 17. öld voru orðnar svo litaðar af særingum, blóðstemmum og fleiru, að það var erfitt að gera greinarmun á þeim og þeim sem kallaðar voru galdrabækur. Menn voru bara dæmdir á bálið ef það fannst eitthvað svoleiðis hjá þeim.“ Galdrafárið á Íslandi stóð frá 1625 til 1690 en á því tímabili voru 25 Íslendingar dæmdir til dauða fyrir villutrú. Ólína segist alla tíð hafa stefnt á að verða fræðimaður. „Ég er grúskari í mér og uni ágætlega ein með mínum bókum þegar þannig ber undir. En svo er þáttur í mér sem sprettur líka fram, samkvæmisljónið sem vill láta á sér bera, og það hefur borið mig af leið, truflað frá ritstörfum.“
Lærðustu lækningar síns tíma
Bókin hefur búið með Ólínu afar lengi. „Hún er búin að vera barnið mitt í 20 ár. Hún spratt eiginlega upp úr doktorsritgerðinni minni. Þegar það rann upp fyrir mér að það væri aðallega verið að brenna fólk á báli fyrir lækningarviðleitni, þá vildi ég skoða betur þessar aðferðir og jurtir sem sögulegt fyrirbæri. Þessi bók fjallar í raun og veru um þjóðfræði lækninganna. Frá því þær voru töfrar og trúarbrögð og þróun þeirra til þeirra vísinda sem þær eru í dag.“ Ólína kemur víða við á leið sinni og rannsakar meðal annars elstu íslensku lækningahandritin. „Þetta eru handrit sem berast til landsins fljótlega eftir að land byggist,“ segir Ólína og bætir við að þau berist frá lærðustu menningarstofnunum Evrópu. Hún rekur eitt þeirra til Hrafns Sveinbjarnarsonar, goðorðsmanns og annálaðasta læknis þjóðveldisaldar, sem bjó á Hrafnseyri við Arnarfjörð. „Þetta eru lærðustu lækningar þess tíma, þó okkur finnist þær frumstæðar og skrítnar í dag.“
Hvernig lækningar eru þetta? „Þær eru alla vega, þetta er mikið af grasafræði, margar þeirra barn síns tíma.“ Ólína vekur einnig athygli á því að konur voru líka læknar á þessum tíma. „Konur voru læknar á þjóðveldisöld. Í Stiklastaðaorustu 1030 er læknirinn sem hugar að Þormóði Kolbrúnarskáldi kona. Við höfum mjög sterkar kventengingar við lækningar í fornbókmenntum okkar, til dæmis í Sigurdrífumálum þar sem valkyrjan rís af sínum beði og tekur á móti Sigurði Fáfnisbana, fer að kenna honum rúnir sem reynast vel, meðal annars lækningarúnir, „bjargrúnir skalt kunna ef leysa vilt kind frá konu.“ Hún ávarpar veröldina og guðina alla.“
Hnetur heillagripir við fæðingar
Þessar aðferðir lifa svo langt fram yfir kristnitöku. „Þá eru það blöð af Margrétar sögu sem eru lögð um læri kvenna og beðið fyrir konum í fæðingunni. Aðferðin er sú sama, trúarbrögðin bara önnur.“ Annað sem notað var í fæðingum voru svokallaðir lausnarsteinar, hneta af plöntu frá Vestur-Indíum sem oft rak á fjörur hérlendis. „Þær voru fægðar og sléttar, oft rauðleitar, kallaðar hafnýra í öðrum löndum. Þetta var algjörlega ómissandi í fæðingum, konan hélt á þessu í hendi sér. Allar yfirsetukonur áttu lausnarstein ef þær voru starfi sínu vaxnar. Á þessum tíma voru náttúrulega ekki svo mörg ráð við fæðingarhjálp önnur en þau að hughreysta konuna, og láta hana trúa að hún komist lifandi í gegnum þetta.“
Grasalækningar voru tortryggðar um miðja 20. öld en Ólína telur að það sé liðin tíð. „Grasalækningarnar eru grunnurinn að nútíma lyflæknisfræði. Þetta er fyrsta efnafræðin, sem menn fara að skoða virknina á mannslíkamann. Grösin hafa áhrif, geta haft bæði eitrunar- og lækningaáhrif. En það þarf náttúrulega að meðhöndla þau af kunnáttu og ekki oftrú.“ Þegar fyrstu lækningahandritin koma til Íslands eru aðallega erlendar jurtir í þeim, en eftir því sem tíminn líður fjölgar íslenskum jurtum. „Þegar komið er fram á 17.-18. öld er búið að byggja upp talsverðan þekkingargrunn um íslenskar villtar jurtir.“
Það var þó annað frá þessum tíma sem orkaði tvímælis, til dæmis voru himintunglin og náttúrukraftar nauðsynleg hjálparráð við allar lækningar. Algengustu lækningar á þessum tíma voru svo blóðtökur. „Það var tekið blóð við nánast öllu. Á 16. og 17. öld voru bartskerarnir helsta stéttin sem beitir blóðtökum. Þeir voru bara hárskerar konunga og aðalsmanna, handlagnir með góða hnífa, og verða smátt og smátt eins konar handlæknar, fara að búa um sár og jafnvel beinbrot.“ En þegar komið er fram á 18. öld fara ýmsir fúskarar og aðrir minna lærðir menn að taka blóð úr fólki. „Þá er talað um blóðtökumenn. Þeir koma í hús og opna æðar á fólki við ýmsum kvillum og margir dóu nú af því.“
Fjórði hver maður úfskorinn
Ýmsar bábiljur voru í kringum blóðtökuna sem og aðrar lækningaaðferðir. Ungu fólki var tekið blóð á vaxandi tungli en eldra á minnkandi. Það þótt ekki gott að taka blóð í janúar, mars, júlí og ágúst, en ágætt í febrúar, apríl og september. Fyrstu fimm daga eftir fullt tungl átti ekki að taka blóð. Það sama átti við um lækningaseyði, í janúar var gott að borða engifer og rabbabara, en ekki að drekka öl í júní og ágúst og í október var gott að drekka kanilseyði við ýmsu.
Annað sem orkaði tvímælis voru svokallaðir úfskurðir. „Það þótti lenska á 18. og 19. öld að skera úfinn úr koki fólks, það er litla totan aftast í kokinu. Einhvern tímann hefur einhver fengið sýkingu í úfinn og þurft að taka hann, og þá hefur þetta orðið vinsælasta læknisráðið í landinu. Jónas frá Hrafnagili segir frá því Íslenskum þjóðháttum að fjórði eða fimmti hver maður hefði verið úfskorinn á tímabili, og tekinn úfur úr börnum í forvarnarskyni. En svo fékk fólk oft blóðeitrun í þetta og dó, þetta var náttúrulega algjörlega tilgangslaus aðgerð í langflestum tilfellum.“
Vanrækt barn sem er búið að snýta og girða
Ólína segir að það sem henni fannst skemmtilegast að uppgötva þegar hún skrifaði bókina var hvað hlutur kvenna í þessari sögu var miklu ríkari en hún hafði haldið. „Og að átta mig á því að elstu lækningarnar á Íslandi frá 12.-13. öld, þó manni finnist þær frumstæðar, áttar maður sig samt á því að þetta eru lærðustu lækningar þess tíma.“ Og Ólína segir líka að annars konar úfskurði megi finna í nútímanum. „Við erum alltaf ofurseld hugmyndafræði. Í dag eru það skapabarmaaðgerðir, tilgangslausar aðgerðir á ungum stúlkum því einhver hefur ákveðið að hlutirnir eigi að vera öðruvísi en náttúran gerði ráð fyrir. Ég sé engan mun á því og úfskurðum á börnum á 18. öld.“
Leið Ólínu að útgáfu bókarinnar hefur verið löng og bugðótt, en hún er afar ánægð með að hún sé nú loks komin út eftir 20 ár. „Oft lá við að þetta dytti upp fyrir. Ég varð skólameistari og svo fór ég í bókina. Svo fór ég inn á þing og í bókina, svo aftur inn á þing og aftur í bókina. Hún er búin að vera eins og vanrækt barn í 20 ár en nú er ég búin að snýta því, girða það og færi það fyrir þjóðina.“ Hún er að vonum ánægð með að bókin er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. „Auðvitað vonast maður til að vera í tilnefningunum en maður leyfir sér ekki að gera ráð fyrir því.“ Hún hefur ekki farið með neina galdraþulu? „Neinei ég lét það alveg eiga sig og hét ekki einu sinni á neinn,“ segir Ólína kímin að lokum.
Sigurlaug M. Jónasdóttir ræddi við Ólínu Þorvarðardóttur í Segðu mér.