Það er vongóður bjarmi yfir æviminningabókinni Systa: Bernskunnar vegna, eftir Vigdísi Grímsdóttur, segir Björn Þór Vilhjálmsson gagnrýnandi. Bókin sé umlukin gleðileika og hann efast ekki um að hún rati til sinna – þó hann sé ekki einn af þeim.


Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

Þegar sögulega sinnað fólk tekur til máls um þessa hluti er stundum talað um „uppfinningu æskunnar“ og „tilkomu barnsins“ sem nítjándu aldar fyrirbæri, og er þar skírskotað til þeirrar viðvarandi reglu að þótt efnisheimurinn haldist stöðugur reynist skilningur okkar á honum kvikur og breytingum undirorpinn. Samkvæmt þessum kenningum var viðmótið í garð barna í oft fátæklega skrásettri fortíðinni þar á undan dálítið eins og Bjartur í Sumarhúsum væri forráðamaður þeirra flestra, faðir og móðir í senn, og tæki ekki almennilega eftir þeim fyrr en hægt væri að senda þau út að strita, og vanalega var þess ekki langt að bíða. Það eru hins vegar rómantísku skáldin ensku, William Wordsworth þar fremstur meðal jafningja, sem í sínum skrifum og skáldskap taka að upphefja bernskuna sem sérstakt og göfgað reynsluskeið, tengt náttúrunni og sakleysi, auðvitað fallvalt en fyrir það þeim mun dýrmætara. Og í eins konar hugmyndafræðilegu boðhlaupi er kefli æskugöfgunarinnar handlangað áfram inn í Viktoríutímann þar sem fagnaðarundir eiga sér stað við hið nýtilkomna borgaralega heimili og upphafningu móðurhlutverksins. Af þessu leiðir jafnframt að hugmyndirnar sem móta skilning okkar á börnum og barnæskunni eru tiltölulega nýjar af nálinni, og þessi sögulega merkingvarvirkni barnsins er jafnframt afskaplega mikilvæg einmitt vegna þess að á henni grundvallast viðmót samfélagsins í heild.

Barnið, bernskan og bókmenntir

Allt er þetta mér ofarlega í huga eftir að hafa lesið nýjustu bók Vigdísar Grímsdóttur, Systa. Bernskunnar vegna, en líkt og undirtitilllinn gefur til kynna er bernskan og hugmyndir okkar um hana í forgrunni í verkinu. Raunar má taka enn dýpra í árinni, bernskan og barnið eru hér gerð að viðfangsefni með tvöföldum, jafnvel tvíefldum hætti, og miðlægur þunginn tengist í senn efnistökum og bakgrunni konunnar sem er viðfangsefni bókarinnar. Systa er Sigrún Sveinbjörnsdóttir, prófessor og sálfræðingur, og hér er um æviminningar hennar að ræða, en textinn er unninn í samvinnu þeirra Vigdísar. Í inngangsorðum Sigrúnar kemur fram að snemma hafi verið ákveðið að sleppa löngum viðtölum og spjalli framan við upptökutæki, í staðinn sendi Sigrún Vigdísi minningar sínar skriflega og það var svo hlutverk þeirrar síðarnefndu að finna skrifum þessum frásagnarlegan búning.

Barnið er viðfangsefni bókarinnar í tvöföldum skilningi sagði ég rétt í þessu, og hafði þá annars vegar vafningalausa áherslu frásagnarinnar á bernsku Sigrúnar í huga. Þótt lífshlaupið sem hér er undir hlaupi nú á áttunda áratug er bókin hálfnuð þegar fyrsti skóladagurinn rennur upp. Vissulega er tímasvið verksins víðara en sem nemur bernskuárunum, sögur af foreldrum Sigrúnar gegna býsna mikilvægu hlutverki í því samhengi, sjónarhornið sem þar gefst færir frásögnina aftur að öldinni öndverðri, en sjálf fæðist Sigrún árið 1946 og fyrstu árin í Skipasundi eru í hvað veigamestu hlutverki. Seinni ástæðan fyrir tvöfeldnisummælunum er svo starfsferill Sigrúnar, en hún hefur alla tíð ýmist starfað með börnum eða haft þau sem fræðilegt viðfangsefni í rannsóknum sínum. Sigrún starfaði lengi sem kennari, nam svo sálfræði og hefur „einkum stundað þvermenningarlegar samanburðarrannsóknir á unglingum með áherslu á að greina og kortleggja hegðun þeirra og hugsun þegar á móti blæs“, eins og það er orðað á Vísindavefnum. Ef Vigdísi heppnast eitthvað öðru fremur þá er það að miðla einlægri umhyggju Sigrúnar fyrir skjólstæðingum sínum og djúpan skilning hennar á barnshjartanu.

Fyrri tíma frásagnir

Ég drap niður fæti á nítjándu öldinni hér í upphafi og fyrir því eru reyndar fleiri ástæður en uppfinning tímabilsins á æskunni, ýmislegt við bókina um Systu minnir á fyrri tíma frásagnir. Á nítjándu öld þótti til að mynda mikilvægt að koma lesanda ekki alveg í opna skjöldu með framvindunni og kaflar byrjuðu þess vegna gjarnan á býsna greinagóðri upptalningu á því sem þar mátti búast við að finna. Þessum hætti fylgir frásögnin Vigdísar, bókinni er skipt í níu hluta og öllum er þeim fylgt úr hlaði með upplýsandi greinargerð. Aðfararorð annars kafla eru til dæmis þessi:

„Hér segir meðal annars frá því hvernig ungri stúlku líður þegar hún kynnist klóm angistarinnar í fyrsta sinn, en þá vill svo til að hún er rétt við það að missa litlu systur sína og blíðlyndan föður sinn. Hér segir líka frá því hvernig gömlum manni líður þar sem hann bíður við hið merkilega hlið dauðans.“

Eins og sjá má er það ekki bara kaflalýsingin sem skírskotar til eldri frásagnarhefðar, tónninn og andrúmsloftið gera það líka, unga stúlkan með blíðlynda föðurinn aðkreppt í klóm angistarinnar meðan gamli maðurinn bíður við dauðans merkilega hlið, allt myndi þetta sæma sér vel í 19. aldar skáldsögu eftir Dickens til dæmis. Sama á við um frásagnarvirkni fortíðarsársins sem er mótandi atvik í lífi Systu, en hér snýst málið um það hvernig Systa missteig sig alvarlega í samskiptum við barnunga nemendur sína snemma á kennaraferlinum.

Hvenær slær maður barn með kennarapriki, og hvenær slær maður ekki barn með kennarapriki?

Rétt orðin tvítug og óreynd stígur hún í fyrsta sinn inn í kennslustofu á Akureyri til að sinna köllun sinni, en hvað gerist? Jú, börnin eru óþæg, sérstaklega er það einn drengurinn sem lætur ekki segjast, sama hversu oft Systa slær kennaraprikinu í borðið svo hvíni í kennslustofunni. Og svo veit Systa eiginlega ekki af sér fyrr en hún hefur látið prikskrattann dynja á höfði prakkarans, og aftur glymur í prikinu, kennslustofunni, kannski allri Akureyri, en allt er líka breytt. Drengurinn, hörkutólið sem andartakinu fyrr bauð kennaranum birginn og í algleymi fangaðrar athygli samnemenda sinna og vina ögraði valdinu, skyndilega hefur hann umbreyst í lúpulegt og hrætt barn, agnarsmátt í samanburði við fullorðna kennarann, og hefur núna hörfað hrætt inn í sig. Það er þarna, ekki við útskriftina í Kennaraháskólanum, heldur þarna þegar Systa horfir í kringum sig og það er dauðaþögn í kennslustofunni, sem köllun hennar raungerist og verður óaðskiljanlegur hluti af henni sjálfri: „þetta mun aldrei gerast aftur, það mun aldrei gerast aftur að ég meiði barn“, hugsar hún, héðan í frá er baráttan „gegn ofbeldi og kúgun“, fyrir „mannréttindum“ og manngildishugsjóninni um velferð barna, hennar barátta.

En sagan er ekki búin. Fimmtíu árum síðar, „í góðum skógi með góðu fólki í góðum dal“, svo vitnað sé beint í textann, hittir hún á göngu miðaldra mann, sem heilsar henni með nafni: „Blessuð vertu, Sigrún Sveinbjörnsdóttir, manstu þegar þú slóst mig í hausinn með kennaraprikinu?“. Hvort hún man! Og þarna fær hún loksins tækifærið til að biðjast fyrirgefningar, sem hún gerir, „takk, góða líf“ segir hún, þakklát fyrir tækifærið til að bera loks smyrsl á gamalt angur. Já það er sannarlega eitthvað þegar manns svæsnustu syndir læknast hálfri öld síðar í krafti svo ólíkindalegs samfundar að hann á auðvitað helst heima í skáldsögu – og raunar hefðu frásagnarkraftaverk af þessu tagi sæmt sér vel í bókinni sem hefst á yfirlýsingunni yndislegu um að of snemmt sé að segja til um hvort hann, sögumaðurinn David Copperfield, verði söguhetjan í eigin lífi, eða hvort einhver annar skipi sér í það hlutverk.

Gleðilega þekkingarfræðin og glimmersprengjan

Vongóður bjarmi er yfir æviminningum Systu og texta Vigdísar og ýmsum aðferðum er beitt til að halda bjartsýnisglóðinni logandi, og má þar nefna nokkuð afdráttarlausan vilja höfundar til að skera á landfestar og jarðbindingu söguefnisins. Aðrir staðir en æskuslóðirnar eru varla til, þegar Systa ferðast vestur um haf er það ekki til tiltekinnar borgar eða lands, heldur Norður Ameríku, þar sem eitthvað óljóst á sér stað með fólki sem ekki er nefnt á nafn, en nafnleysi margra þeirra persóna sem koma við sögu eða vísað er til er annað dæmi um fljótandi og misturskennda söguaðferðina, sem og auðvitað góði skógurinn áðurnefndi í góða dalnum. Þá er fjallað um barnadauða, heimilisofbeldi, foreldramissi, heilahrönunarsjúkdóma og ýmislegt annað með svo fölskvalausum vorhug að samanburðurinn sem mér flaug helst í hug reyndist vera við lífsviðhorf og lundarfar titilpersónunnar í bandarísku kvikmyndinni Forrest Gump. Vitanlega er þetta viljandi gert, ákveðinn tónn, ákveðinn andi, er framkallaður, og kannski endurskapar textinn með performatískum hætti skapgerð og óbilandi baráttuanda og lífsgleði, Systu. Ljóst er ennfremur að mörgum fellur áferðin vel, en ég verð að viðurkenna að fyrir mér fór ljóminn dálítið hratt af frásögninni. Í myrkrinu eru allir kettir svartir segja þeir og í alltumlykjandi gleðileika sögunnar um Systu legst einsleitt glimmerflóð yfir allt og alla. Fannst mér. Þetta er bók sem ratar til sinna, á því er enginn vafi, það vildi bara þannig til að ég er ekki einn af þeim.