Hætta er talin á að hátt í 90% tungumála heimsins deyi út fyrir næstu aldamót. Árið 2019 er Ár frumbyggjatungumála hjá Sameinuðu þjóðunum. Frægt Bítlalag sem hljóðritað var á Mi'kmaq máli frumbyggja N-Ameríku, hefur slegið í gegn í Kanada.
Einfalt lag með mikinn boðskap
Lagið Blackbird söng Paul McCartney á Hvíta albúmi Bítlanna, sem kom út í nóvember 1968. Þetta einfalda og fallega lag samdi Paul á umbrotamiklu ári í heiminum, ári kynþátta- og stúdentauppreisna, ári mannréttindabaráttu og árinu sem Martin Luther King og Robert Kennedy voru myrtir. Bítlafræðingar eru ekki á einu máli um hvort lagið sé óður til mannréttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum, einfaldlega ástarsöngur eða hvort tveggja. Vængbrotinn svartþrösturinn sem allt sitt líf þráði að fljúga, og nú var stundin upp runnin.
2019 tileinkað frumbyggjatungumálum.
Árið 2019 er ár frumbyggjatungumála hjá Sameinuðu þjóðunum. Frumbyggjatungumál eiga flest undir högg að sækja um allan heim og eiga á hættu að deyja út, mismikilli þó. Talið er að um sjö þúsund tungumál séu töluð í heiminum, tæplega 2700 eru í mikilli hættu á að hverfa með þessari eða næstu kynslóð. Milli 50 og 90% tungumála verða horfin um næstu aldamót.
Helmingur tungumála heims í átta löndum
Helmingur jarðarbúa talar eitthvert af 20 algengustu tungumálunum. Flest heimsins tungumál eru töluð af færri en 10 þúsund manns. 370 milljónir manna í 90 löndum eru af frumbyggjaættum. Helmingurinn af öllum tungumálum heimsins er talaður í aðeins átta löndum, Indlandi, Brasilíu, Indonesíu, Nígeríu, Kamerún, Papúa Nýju Gineu, Mexíkó og Ástralíu.
Lagið sungið á frumbyggjamáli á Nova Scocia
Mi'kmaq frumbyggjaþjóðin er um 170 þúsund manns og dreifist um austurströnd Kanada og Maine ríki í Bandaríkjunum. Einungis tæplega 10 þúsund manns tala hins vegar Mi'kmaq málið. Fólk af Mi'kmaq ættum býr til að mynda á Nova Scocia eyju. Þar er stærsta samfélag Mi'kmaq frumbyggja í Norður Ameríku.
Nokkrir nemendur og kennarar af Mi'kmaq ættum við Allison Bernard Memorial menntaskólann tóku sig til, sneru texta McCartneys um svartþröstinn yfir á frumbyggjamálið, tóku upp myndband og sendu það á Youtube-veituna sem sitt litla framlag til árs frumbyggjatungumála hjá Sameinuðu þjóðunum.
Fann samhljóm með texta McCartneys
Söngkonan heitir Emma Stevens og er aðeins 16 ára, en talar Mi'kmaq málið. Það er skemmst frá því að segja að lagið og flutningurinn er á góðri leið með að bræða hjörtu fjölmargra Kanadabúa, ekki síst eftir að því var útvarpað á landsrás CBC ríkisútvarpsins. Emma Stevens segist strax hafa fundið samhljóm í texta McCartneys og örlögum sinnar eigin þjóðar og tungumálsins, sem hún óttast að enginn muni tala þegar líður á öldina. Það var hins vegar erfitt að þýða textann þannig að hann félli að laginu. Uppbygging enskunnar og Mi'kmaq mális er svo ólík að ekki var hægt að nota beina þýðingu, heldur þurfti að ná anda lagsins og koma honum til skila - og það hefur svo sannarlega tekist.