Ungt par er útbitið eftir að blóðsjúgandi rottumítlar bitu þau í leiguíbúð í miðbæ Reykjavíkur. Búslóð þeirra er líklega ónýt. Heilbrigðiseftirlitið hefur metið íbúðina heilsuspillandi og óíbúðarhæfa.

Fyrir um ári síðan flutti Sæmundur Heiðar Emilsson í kjallaraíbúð í húsi við Laugaveg ásamt kærustu sinni og 4 ára gömlum syni hennar. Saga þeirra er sögð í DV í dag. Allt gekk vel þangað til fyrir sex vikum, þegar þau fóru að taka eftir torkennilegum hljóðum sem bárust innan úr veggjunum.

„Það var svona krass bara. Eins og rotturnar væru að krassa í vegginn,“ segir Sæmundur.

Í ljós kom að rottur höfðu hreiðrað um sig, enda lagnir í húsinu orðnar mjög lélegar. Stuttu síðar tóku Sæmundur og konan hans eftir slæmum útbrotum.

 

„Þetta var þannig að ég vaknaði og var með fullt af rauðum doppum á brjóstkassanum, á höndunum og fótunum.“

Klæjaði þig undan þessu?

„Já svolítið mikið.“

Kona Sæmundar var einnig mikið bitin en sonur hennar slapp.

„Ég hélt fyrst að þetta væru svitabólur. En svo var þetta bara að koma meira og meira og meira. Og maður var alltaf að klóra sér í þessu.“

Geta borið smit

Skömmu síðar tók Sæmundur eftir tveimur agnarsmáum pöddum í andlitinu á sér.

„Ég fór bara í spegil og þá sá ég þessa tvo. Og ég drap þá og fór út.“

Í ljós kom að þarna voru svonefndir rottumítlar á ferðinni. Þeir eru blóðsjúgandi sníkjudýr sem lifa oftast á nagdýrum en leita einnig á fólk. Karl Skírnisson, sníkjudýrafræðingur, sagði í samtali við fréttastofu í dag, að rottumítlar greinist öðru hvoru á Íslandi. Mítillinn geti borið með sér sjúkdóma, en líkur á að smitast séu ekki miklar á Íslandi.

Fóruð þið til læknis út af þessu?

„Já. Og þá var staðfest að þetta væri bit. Og við spurðum hvað við ættum að gera. Ef við finnum fyrir einkennum næstu þrjá mánuði eigum við að láta vita.“

Heilbrigðiseftirlitið hefur skoðað íbúðina og er niðurstaðan sú að hún sé óíbúðarhæf og heilsuspillandi. Gerð er krafa um að eitrað verði nú þegar og að lagnir verði lagaðar til að tryggja að rottur komist ekki inn í húsnæðið.

Finnst ykkur þetta ógeðslegra af því að þetta kemur af rottum?

„Já. Bara að vita að þetta hefur verið á rottum. Svo deyr rottan og þá þurfa þeir að fara eitthvert annað. Auðvitað finnst mér það ógeðslegt. Þetta eru bara blóðsugur. Þær eru að leitast eftir blóði.“

Sæmundur segir að leigusalinn hafi ekkert viljað gera fyrir þau og þau séu því flutt út. Eigur þeirra séu líklega ónýtar.

„Þetta er aleigan. Allt sem við eigum er þarna inni.“

Búslóð og föt?

„Öll fötin okkar eru þarna inni. Það er bara allt farið,“ segir Sæmundur.