Biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, bað í kvöld samkynhneigt fólk afsökunar fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Hún sagði kirkjuna hafa valdið því bæði sárauka, vandræðum og erfiðleikum í gegnum tíðina og því væri hún fús til að biðjast afsökunar fyrir kirkjunnar hönd.

Þetta kom fram í máli biskups í Kastljósi í kvöld en þar var hún meðal annars spurð út í afstöðu fyrrverandi biskupa í garð samkynhneigðra. 

Hér má horfa á viðtalið við Agnesi í heild sinni. 

Þjóðkirkjan og þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, mótmæltu harðlega breytingartillögu Guðrúnar Ögmundsdóttur, þáverandi þingmanns, á frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi árið 2006 um margvíslegar réttarbætur fyrir samkynhneigða. Tillagan veitti prestum þjóðkirkjunnar heimild til að gefa saman samkynja pör. Í þættinum Svona fólk á RÚV var sýnt brot úr gömlu viðtali við Karl þar sem hann sagði meðal annars  að hjónabandið ætti það inni að því væri ekki kastað „á sorphauginn án þess að hugsa okkar gang.“ 

Orðum biskups var mótmælt harkalega og heimildin til trúfélaga að gefa saman samkynja pör var inni í frumvarpinu þegar það var samþykkt.

Einar Þorsteinsson, umsjónamaður Kastljóss, vakti máls á þessu og spurði Agnesi hvort samkynhneigðir ættu rétt á afsökunarbeiðni frá kirkjunni vegna orða þessa æðsta yfirmanns kirkjunnar. 

„Ég get alveg beðið fólk afsökunar á því að kirkjan hafi komið svona fram og sært fólk og valdið þeim bæði sársauka og vandræðum og erfiðleikum. Ég er fús til þess að biðjast afsökunar á því,“ svaraði Agnes.