Birgitta Haukdal hefur gefið út nýtt lag í samstarfi við upptökustjórateymið September sem er skipað þeim Eyþóri Úlfari Þórissyni og Andra Þór Jónssyni. Þetta er hennar fyrsta lag frá árinu 2011.
Samstarfið kom þannig til að Eyþór og Andri sömdu lag og veltu fyrir sér með hverjum þeir vildu helst vinna. „Svo sendum við það á hana og hún var til í þetta.“ Birgitta var, eins og kunnugt er, söngkona Írafárs sem var eitt af stærstu sveitaballaböndum landsins á blómaskeiði þeirra í kringum aldamótin. Írafár lék fyrir tveimur pakkfullum húsum á endurkomutónleikum í Eldborg í fyrra en frekara samstarf er ekki fyrirhugað þar í náinni framtíð. „Það var eitthvað um leið og ég heyrði lagið og stemmninguna, að ég hugsaði „af hverju ekki?“ Ég hugsaði líka að þetta væri lag sem ég væri til í að dansa við ef ég færi út að skemmta mér,“ segir Birgitta um samstarfið við September.
Andri og Eyþór hafa verið aðdáendur Írafárs síðan þeir voru örlitlir snáðar. „Við hugsuðum bara, hvað þær væri geggjað að fá Birgittu Haukdal í lag.“ Lagið heitir Nær þér og fjallar um lystisemdir tilhugalífsins. „Fólk getur fundið sína sögu með því að hlusta á lagið, þetta er ekki týpísk ástarsaga, en það myndast einhver mynd í huganum þegar þú hlustar. Það er líka mjög gaman fyrir þá sem eru glöggir að það er smá Írafárstilvitnun,“ segir Birgitta glettin.
Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Birgittu Haukdal, Andra Þór Jónsson og Eyþór Úlfar Þórisson í Popplandi.