Bikarmeistarar síðustu tveggja ára, Tindastóll og Stjarnan, áttust við í undanúrslitum Geysisbikars karla í kvöld. Stjarnan vann þar öruggan 98-70 sigur og mætir Grindavík í úrslitum á laugardag.

Grindavík sigraði Fjölni í fyrri leik undanúrslitanna í kvöld en bikarmeistarar síðustu tveggja ára í liðum Stjörnunnar og Tindastól mættust svo í seinni leiknum.

Stjarnan varð bikarmeistari í fyrra en Tindastóll fyrir tveimur árum. Stjarnan er á toppnum í Dominos-deildinni en Tindastóll í 3. sæti. Það var því búist við hörkuslag í Höllinni í kvöld.

Skagfirðingar skoruðu fyrstu fimm stig leiksins en leikurinn jafnaðist svo út og Kyle Johnson kom Stjörnunni stigi yfir í 12-11. Stjarnan var svo fjórum stigum yfir eftir fyrsta fjórðung, 18-14.

Stjarnan hélt frumkvæðinu áfram í öðrum leikhluta en Axel Kárason jafnaði þó metin í 24-24 með þriggja stiga körfu. Stjörnunni tókst aftur að slíta Tindastól frá sér, en alltaf komu Tindastólsmenn til baka. Tveimur stigum munaði í hálfleik, 45-43 fyrir Garðbæinga.

Það mynstur leiksins var rofið í þriðja leikhluta. Stjarnan lék þar á als oddi þar sem Garðbæingar gerðu Tindastóli erfitt fyrir á báðum endum vallarsins. Stjarnan skoraði þar 28 stig gegn aðeins 17 stigum andstæðingsins og var munurinn því 13 stig, 73-60 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Stjarnan lét kné fylgja kviði í upphafi fjórða leikhlutans. Þeir skoruðu fyrstu tólf stigin til að ná 25 stiga forystu, 85-60. Það bil reyndist of stórt fyrir Tindastól að brúa. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Garðbæingar með öll völd á vellinum í þeim síðari og unnu öruggan 98-70 sigur.

Stjarnan mætir því Grindavík í bikarúrslitum klukkan 13:30 á laugardag. Sá leikur verður sýndur beint á RÚV.

Á morgun kemur í ljós hvaða lið fara í bikarúrslit kvenna er undanúrslitin fara fram. KR mætir Val klukkan 17:30 og þá eigast Skallagrímur og Haukar við klukkan 20:15.

Leikir morgundagsins:

17:30 KR - Valur (RÚV 2)
20:15 Skallagrímur - Haukar (RÚV 2)

Laugardagur 15. febrúar
13:30 Grindavík - Stjarnan (RÚV)
16:30 Úrslitaleikur kvenna (RÚV)