Bandaríkjastjórn er hvött til að tryggja öryggi barna á landamærum Mexikó og Bandaríkjanna í bréfi varaforseta Evrópuráðsþingsins. Tilmæli um að stöðva ofbeldi gegn börnum á flótta var samþykkt í Evrópuráðsþinginu um helgina.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaforseti Evrópuráðsþingsins og þingmaður Vinstri grænna, vann skýrslu fyrir þingið sem varð grunnur að ályktun sem var samþykkt einróma. Skýrslan fjallar um ofbeldi gegn börnum á flótta. Lagðar eru til breytingar á lögum aðildarríkja til að koma í veg fyrir ofbeldi og illa meðferð. Hún telur að aðildarríki Evrópuráðsins verði að grípa til sterkari aðgerða.
„Þau þurfa til að mynda að veita börnum upplýsingar sem þau geta skilið, þau þurfa að veita börnum aðstoð og fylgd af hálfu hins opinbera til þess að varðveita og búa svo um hnútana svo þau fái þá aðstoð sem þeim ber," segir Rósa.
Aðrar aðferðir þurfi til að greina aldur barna
Einnig þurfi að nota aðrar aðferðir til að greina aldur barna sem koma til landanna en slíkt hefur verið gagnrýnt hér á landi. „Við viljum ekki sjá tanngreiningar eða beinagreiningar, eða jafnvel skoðun á kynfærum eins og tíðkast í Danmörku. Við viljum heildstæðari nálgun þar að lútandi," segir hún.
Fordæmdi ástandið á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna
Aðstaða barna á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna hefur vakið harða gagnrýni. Eftir að mynd birtist af feðginum sem höfðu drukknað lýsti Unicef, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna yfir þungum áhyggjum. Sendiherra Mexíkó ávarpaði fund Evrópuráðsþingsins sem sérstakur gestur og biðlaði til þingsins um hjálp við að leysa neyðarástandið á landamærunum. Með bréfi til sendiherra Bandaríkjanna fordæmdi Rósa Björk ástandið þar og hvatti yfirvöld til að bregðast við.
Þurfum að hætta að vísa börnum úr landi
„Þau þurfa að koma í veg fyrir með öllum ráðum ofbeldi eða þá að hneppa börn í varðhald eða í einhverskonar gæsluvarðhald sem hefur verið að tíðkast þarna á landamærunum, það er það sem ég er að koma á framfæri með mínu bréfi," segir Rósa. Hún kalli einnig eftir skýrari afstöðu íslenskra stjórnvalda.
„Börnum hefur verið vísað úr landi og það er eitthvað sem ég held að við þurfum að hætta," segir Rósa Björk.