Bið eftir tíma hjá gigtarlækni er nú frá tveimur til tólf mánaða og mun lengri en viðmiðunarmörk embættis landlæknis segja fyrir um. Emil Thoroddsen, framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands, segir að biðin geti reynst mörgum erfið.
Snemmgreining skipti miklu máli
Emil sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það væri ekkert nýtt að það það þyrfti að bíða lengi eftir tíma hjá gigtarlækni. Kerfið þurfi að vera skilvirkara og fólk sem þurfi greiningu verði að fá tíma fyrr. Um leið og það komist að hjá gigtarlækni gangi hlutirnir þó yfirleitt hraðar fyrir sig. Það skipti miklu máli að grípa snemma inn í ýmsa gigtarsjúkdóma.
Sjúkdómsgreiningarnar eru á annað hundrað og er talið að fimmti hver maður með gigt og stoðkerfisvanda, að sögn Emils. Tíu prósent þeirra séu illa haldin. „Það sem fólk á sameiginlegt eru verkir og þreyta,“ segir Emil. Lyflækningar séu mikilvægar fyrir fólk með gigt. Fleira skipti máli eins og hreyfing og mataræði. Engin ein formúla sé til, það geti verið mismunandi hvað henti fólki.
Líftæknilyf gríðarleg framþróun
Emil segir að líftæknilyfjum fylgi mikil framþróun í meðferð bólgusjúkdóma. Á Íslandi sé gott aðgengi að þessum lyfjum, kostnaðurinn sé þó hár en með samheitalyfjum hafi kostnaðurinn lækkað.
RÚV greindi frá byltingu á lyfjamarkaði fyrr á árinu með aukinni framleiðslu líftæknilyfja. En þau hafa gjörbreytt líðan gigtarsjúklinga og fólks með krabbamein, sóríasis og fleiri alvarlegra sjúkdóma. Líftæknilyf eru mjög öflug og virðast virka betur en hefðbundin lyf. Þau eru meðal söluhæstu lyfja í heiminum. Líftæknilyf eru lyf sem framleidd eru með hjálp lífvera, baktería, sveppa eða annarra fruma sem er genabreytt til að framleiða ákveðin efni líkt og prótein.