Berserkir fara brynjulausir og galnir sem hundar eða vargar, þeir óttast hvorki eld né járn; eru sterkir sem birnir eða griðungar, þeir grenja sem hundar, bíta í skjaldarrendur og vaða elda brennandi berum fótum. Snemma í Egilssögu segir um berserki Haralds konungs að þá hafi eigi bitið járn og eru þeir einir ósárir eftir mikla orrustu í Hafursfirði. Sú tilgáta hefur þykir ekki lengur líkleg að sveppaát hafi kallað fram bardagamóðinn.
Segir reyndar í Egilssögu frá því þegar Egill Skallagrímsson banar berserknum Ljóti í hólmgöngu með því að höggva af honum fótinn. Kannski skipir þar máli að Egill er sjálfur af berserkjakyni, faðir hans og afi hamrammir. Grettir banar tíu berserkjum sem eru orðnir móðir af öldrykkju og læstir vopnlausir inni í útibúri. Engu að síður er það mikil raun að vinna á þeim. Þó að í sögum komi ekkert fram um það hvernig menn framkalla berserksganginn hafa menn sett fram þá tilgátu að hann hafi runnið á þá eftir að þeir átu berserkjasveppi.
Nornajurt eða djöflarót líklegri
Nú hefur slóvenski vísindamaðurinn Karsten Fatur sem stundar sínar rannsóknir við líffræðideild háskólans í Ljúbljana fengið birta grein í vísindaritinu Journal of Ethnopharmacology þar sem hann leiðir að því líkur að berserkirnir hafi alls ekki étið berserkjasveppi eða Amanita muscaria. Fatur er sérlega áhugasamur um þau fræðasvið þar sem grasnytjar, lækningar og kerlingabækur skarast. Í útdrætti úr grein hans Sagas of the Solanaceae segir að berserkjasveppurinn geti vissulega kallað fram ýmislegt annarlegt en það sé sé miklu líklegra að berserkir eða úlfhéðnar hafi notað jurtina hyoscyamus niger til að kalla fram æðið sem á þá rann. Sú jurt segir í orðabókum er daunill eiturjurt af kartöflukyni og heitir upp á íslensku nornajurt eða hundabani. Er greinilegt af nafngiftum að þetta er ekki nein meinleysisplanta. Á þýsku er hún ekki bara kennd við nornir, Hexenkraut heldur líka þann svarta sjálfan eða Teufelswurz, djöflarót. Nornajurtin kallar ekki bara fram ofskynjanir og æði heldur slævir hún líka sársauka og var notuð til að stilla verki til forna. Það kom sér vel þegar menn hjuggu á báðar hendur. En vegna þess hve eitruð jurtin er og erfitt að stilla skammtana var hætt að nota hana í lækningaskyni. Í umfjöllun í Spiegel er líka bent á að berserksgangur teljist ekki lengur góð og skilvirk aðferð í stríðsrekstri.
Glæsilegur en varhugaverður
Þó að í sögum komi ekkert fram um það hvernig menn framkalla berserksganginn hafa menn sett fram þá tilgátu að hann hafi runnið á þá eftir að þeir átu berserkjasveppi. Berserkjasveppur, flugusveppur eða reiðikúla er eitraður og í honum að minnsta kosti þrenns konar eiturefni að því fram kemur í umfjöllun um þennan tignarlega svepp með sinn rauða hatt og hvítar doppur á vísindavef háskólans. Hann hefur verið notaður víða til að komast í vímu en aukaverkanirnar geta verið margar og margvíslegar og jafnvel orðið banvænar. Kenningin um að þessi sveppur hafi verið meðal berserkja var sett fram af norskum prófessor á 19. öld, Dr. Schubeler vísaði til þess að Óðinn hefði búið yfir kunnáttu um hvernig framkalla mætti berserksgang með því að éta flugusvepp, og flutt með sér frá Asíu. Sturla Friðriksson ritar reyndar um það í tímaritinu Náttúrufræðingnum fyrir meira en hálfri öld í tilefni frétta um að fundist hafi Berserkjasveppur hér á landi, að hann hafin vaxið miklu lengur hér á landi. Rekur Sturla svo líka sögur um berserkjasveppi og verkan þeirra og að kenningar norska prófessorins hafi breiðst hratt út og rekur íslensku nafngiftina á sveppnum til þeirra. En hann fjallar líka um það að skömmu eftir að þær kenningar voru settar fram hafi menn hrakið þær. Og lýsingar á eitrun af hans völdum séu ekki eins og lýsingar á æði og ónæmi berserkjanna.