Stjórnendur olíufélaganna hafa tekið vel í að bensínstöðvum verði fækkað í Reykjavík, segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar. Þar eru 44 bensínstöðvar. Á höfuðborgarsvæðinu er ein bensínstöð á hverja 2.700 íbúa. Til samanburðar er ein bensínstöð á hverja tíu þúsund íbúa í Lundúnum.
Verslanir í stað bensínstöðva
Fyrst á fjarlægja bensínstöðvar inni í hverfum, samkvæmt áætlunum borgarinnar. Hugmyndin er sú að bensínstöðvar við stofnbrautir verði svokallaðar fjölorkustöðvar þar sem hægt verður að kaupa rafmagn, metan og vetni á bíla og önnur farartæki. Sigurborg segir eðlilegast að stöðvarnar inni í hverfum fari fyrst enda séu þær stundum á svæðum þar sem vanti til dæmis matvöruverslanir eða aðra þjónustu.
Segir að loftslagsmálin eigi ekki að vera pólitísk
Svo bar við í gær að allir flokkar í borgarráði voru sammála um að flýta því að ná þessu markmiði, að bensínstöðvum hafi fækkað um helming árið 2025 en ekki 2030 líkt og segir í loftslagsáætlun borgarinnar. „Það er mjög jákvætt og mikilvægt því að loftslagsmálin eiga ekki að vera pólitísk þannig að það er mjög mikilvægt að reyna að falla ekki í þá gryfju og þarna voru allir samstíga,“ sagði Sigurborg í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hún segir að þó megi ekki gleyma því að þrátt fyrir að vera á góðri ferð með orkuskipti í samgöngum megi ekki falla í þá gryfju að halda að það eitt og sér sé nóg til að ná markmiðum Parísarsamningsins. Rannsóknir hafi sýnt að það þurfi að minnka bílaumferð hér á landi um 15 til 50 prósent til ná loftslagsmarkmiðum.
Þétta byggð og fækka bensínstöðvum
Orkuveita Reykjavíkur spáir því að árið 2030 verði rafbílar helmingur bílaflotans hér á landi og orkuskiptin eru fyrirferðamikil í loftslagsáætlunum ríkisstjórnarinnar. „Þetta snýst um orkuskipti í samgöngum, fyrst og fremst, og svo að bæta byggðina í þessum hverfum þar sem að stöðvarnar eru. Ríkisstjórnin og Reykjavíkurborg eru með metnaðarfull markmið um orkuskipti í samgöngum og það stendur til að hætta að flytja inn bíla sem eru knúnir dísil og olíu fyrir 2030 þannig að við þurfum að huga sérstaklega að því,“ segir hún.
Hugarfarið hefur breyst síðan 2010
Borgarráð samþykkti einnig í gær að setja á stofn samninganefnd sem á að leiða viðræður á milli lóðarhafa og þeirra sem reka bensínstöðvarnar. Þeim verður boðið að skoða möguleika á uppbyggingu á lóðunum. „Ef þetta er gert innan tveggja ára frá því að lóðaleigusamningur fellur út, þá fellum við niður ákveðin gjöld á móti þannig að við erum að skapa hvata til að fækka þeim,“ segir Sigurborg. Forsvarsfólk olíufyrirtækjanna hefur tekið vel í þessar áætlanir borgarinnar. Það var þó ekki svo árið 2010 þegar þessar hugmyndir voru fyrst kynntar, að sögn Sigurborgar. „Það er breyttur tónn og ég hef bara fengið jákvæð viðbrögð. Við sjáum öll stóru myndina og erum að fara í sömu átt.“ Olíufyrirtækin séu engin undantekning og hún telur að allir séu samstíga.