Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, segist ekki líta svo á að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli hans og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra. Stjórn Bjartrar framtíðar ákvað í gærkvöld að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests sem tengdist máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds barnaníðings, og því að faðir Bjarna hefði skrifað undir meðmælabréf með því að hann fengi uppreist æru.

Benedikt, sem er staddur á Akureyri, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi ekki vitað að stjórnarslitin væru yfirvofandi. Hann hafi fyrst frétt af því þegar Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, hringdi í hann að loknum stjórnarfundinum um miðnætti.

Hvað finnst þér um þessa ákvörðun?
„Það verður hver að taka sína ákvörðun fyrir sig og þetta er ákvörðun Bjartrar framtíðar og þeirra stjórnar og maður verður að virða það þegar maður er í samstarfi við einhvern – það verða allir að stjórna sér sjálfir,“ segir Benedikt.

Var þetta möguleiki sem hafði verið ræddur innan Viðreisnar?
„Nei, við höfðum ekki rætt þetta innan Viðreisnar. Það getur vel verið að einhverjir innan Viðreisnar hafi velt þessu fyrir sér en þetta hafði ekki verið rætt í stjórn eða þingflokki,“ segir fjármálaráðherra.

Vissi ekkert um samskipti Bjarna og Sigríðar

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagði frá því fréttum í kvöld að hún hefði greint Bjarna Benediktssyni frá meðmælabréfi föður hans í júlí. Stjórn Bjartrar framtíðar og formaðurinn Óttarr Proppé hafa gærkvöld og nótt sagt að það hafi falist trúnaðarbrestur í því að Bjarni hefði leynt þeim upplýsingum allan þennan tíma. Benedikt er ekki sammála því.

„Nei, ég upplifði þetta nú ekki þannig en það verður auðvitað að játast að nú erum við að horfa á mál sem eru bara að koma fram akkúrat núna í fjölmiðlum almennt. Ég hef rætt við forsætisráðherra, hann hefur útskýrt málið fyrir mér og ég upplifi þetta ekki sem trúnaðarbrest,“ segir Benedikt.

Hann segir að Bjarni hafi greint þeim Óttari frá því á mánudag að faðir hans hefði skrifað bréf af þessu tagi, en ekki hvaða máli það bréf hefði tengst.

„Við spurðum hann hvort þetta væri eitthvert mál sem mundi snúa að vanhæfi Bjarna í einhverjum málum – við höfðum ekki hugmynd um hvaða mál þetta var – og hann sagðist ekkert hafa komið nálægt þessu máli sjálfur,“ segir hann.

Var það fyrst í fréttum í [gær]kvöld sem þú vissir að dómsmálaráðherra hefði upplýst hann um þetta í júlí?
„Já já, ég vissi ekkert um þeirra samskipti.“

Sér ekki fyrir sér önnur stjórnarmynstur

Viðreisn sendi frá sér yfirlýsingu klukkan fjögur í nótt þar sem segir að í ljósi stöðunnar telji þingflokkurinn réttast að boðað verði til kosninga hið fyrsta. Benedikt segir að kosningar séu rökréttasta niðurstaðan – hann sjái illa fyrir sér önnur stjórnarmynstur.

„Við sjáum það nú ekki fyrir okkur – auðvitað eigum við eftir að ræða saman, stjórnmálaleiðtogar, og það á eftir að hafa samband við forseta Íslands og svo framvegis, en í ljósi þess að við vorum í stjórnarmyndunarviðræðum í átta vikur síðastliðið haust, þessir nákvæmlega sömu flokkar og sitja á Alþingi núna, og þetta stjórnarmynstur sem núna er verið að slíta var það eina sem varð ofan á eftir þessar mjög löngu viðræður, þá sjáum við nú kannski ekki aðra kosti í stöðunni núna,“ segir hann.

„Það getur vel verið að þetta skýrist með einhverjum öðrum hætti á morgun en þannig horfum við á þetta. Og við göngum óhrædd til kosninga þegar þar að kemur. En við ráðum þessu auðvitað ekki ein,“ bætir hann við.

Á dagskrá Alþingis í dag er framhald umræðu um fjárlögin sem Benedikt lagði fram á þriðjudag og mælti fyrir í gær. Benedikt hlær þegar hann er spurður hvort hann haldi að sú dagskrá muni standa. „Ég satt að segja veit það nú ekki. Það getur nú verið að menn hafi um annað að ræða núna á eftir. Við skulum sjá til hvað verður úr því en það verður auðvitað að undirbúa fjárlög. Það verður að vera einhver stjórn á landinu,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, segir eðlilegt að þingheimur endurnýi umboð sitt með því að boðað verði til nýrra þingkosninga. Þannig verði best brugðist við meðferð þeirra mála sem varða uppreist æru og stöðunni sem komin er upp eftir að Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu.