Þessum viðburði er lokið og því hefur streymið verið fjarlægt.

RÚV gefur öllum landsmönnum kost á að fylgjast með sauðburði í beinni útsendingu í heilan sólarhring frá fjárhúsunum á Syðri-Hofdölum í Skagafirði, hjá þeim Atla og Klöru.

Sauðburður stendur nú sem hæst og það er ógleymanlegur tími fyrir þá sem eiga þess kost að fylgjast með litlu lömbunum skríða jarmandi í heiminn. Við fylgjumst með sauðburði og vonandi fæðast nokkur lömb í beinni útsendingu! Um leið kynnumst við hefðbundnum störfum bænda á sauðburði. 

Útsendingin hefst á hádegi fimmtudaginn 14. maí, uppstigningardag, og stendur til hádegis föstudaginn 15. maí. Fylgist með hér á vefnum eða í sjónvarpi á RÚV 2.

Gísli Einarsson, sjónvarpsmaður, verður á staðnum og spjallar við bændur og búalið. Takið þátt í umræðunni á Twitter síðu RÚV og spyrjið bændur spurninga með því að nota myllumerkið #beintfráburði.

Ert þú í sauðburði? Sendu okkur myndir á Facebook síðu RÚV.

Uppfært: Sendir í útsendingarbíl gafst upp eftir um 20klst keyrslu og lá útsending niðri um stund í morgun. Vegna þessa verður útsending framlengd til kl. 13.