Geðhjálp hefur beðið í rúm tvö ár eftir greiningu Landspítalans á því hvað gerðist þegar maður svipti sig lífi eftir að hafa komið að lokuðum dyrum á geðdeild. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að Bretum hafi tekist að fækka sjálfsvígum um 60 prósent.
Karlmaður á þrítugsaldri svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans á fimmtudag. Þetta var annað sjálfsvígið á deildinni á tveimur vikum. Framkvæmdarstjóri Geðhjálpar segi að þetta sé harmleikur sem eigi ekki að geta gerst. Gera verði allt sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.
„Þetta er auðvitað mjög viðkvæm umræða og við þurfum að gæta orða okkur og passa upp á að hún hafi ekki neikvæðar afleiðingar. Heldur að hún snúist um það sem hún á að snúast um, sem er auðvitað hvernig geðheilbrigðiskerfi við viljum hafa í þessu landi,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.
„Við þurfum að styðja spítalann í því sem hann hefur verið að gera síðustu daga, og heldur áfram að gera í rótargreiningum og svo framvegis. En við þurfum að horfa á allt kerfið. Og sérstaklega auðvitað grunninn sem er heilsugæslan. Einn þriðji af öllum sem koma á heilsugæsluna leita þangað út af geðrænum erfiðleikum. Núna er búið að tækla börnin hérna í Reykjavík og helstu þéttbýliskjörnunum. En fullorðnir eru algjörlega eftir og við höfum sérstakar áhyggjur af hópnum 18 til 30 ára. Og viljum að hann sé settur í forgang.“
Anna Gunnhildur segir að of algengt sé að fólk leiti beint til spítalans, í stað þess að fara á heilsugæsluna. Slíkt geti valdið miklu álagi á spítalann. Þjónustan á heilsugæslunni sé hins vegar ekki nógu góð.
„Það eru einfaldlega ekki sálfræðingar til þess að hjálpa fullorðnu fólki á heilsugæslunni,“ segir hún.
Óásættanlegt
Anna Gunnhildur bendir á að í Bretlandi hafi stjórnvöldum tekist að fækka sjálfsvígum á geðdeildum um 60% á tíu ára tímabili, aðallega með því að útbúa sjúkrastofur á geðdeildum þannig að ekki sé hægt að stytta sér aldur.
Anna Gunnhildur hefur verið í sambandi við forsvarsmenn Landspítalans undanfarna daga, og óskað upplýsinga um atburði undanfarinna vikna. Spítalinn hefur ráðist í svokallaða rótargreiningu á atvikunum, sem er ítarleg greining á orsökum alvarlegra atvika, sem ráðist er í í þeim tilgangi að læra af þeim.
„Því miður taka þær oft töluverðan tíma og við erum með eitt dæmi inni núna um rótargreiningu sem hefur tekið ríflega tvö ár. Og við erum ekki búin að fá niðurstöðu úr en vonumst til að fá núna í næstu viku. En það er auðvitað alls ekki ásættanlegt,“ segir Anna Gunnhildur. Sú rótargreinin er vegna alvarlegs atviks sem átti sér stað sumarið 2015.
„Það snérist um mann sem leitaði til geðsviðsins á Hringbraut rétt fyrir lokun á laugardegi. Það var annar á undan honum þannig að hann komst ekki að fyrir klukkan fimm. Hann hittir geðlækni sem vísar honum niður í Fossvog. Hann fer þangað og talar við nokkra fagmenn og gerir grein fyrir því að hann sé fullur af sjálfsvígshugsunum og þurfi aðstoða hið fyrsta. Hittir síðan aftur lækninn sem hann hitti á spítalanum og verður sár yfir því að þarna sé kominn maður sem hafnaði honum. Og yfirgefur spítalann og finnst síðan dáinn stuttu seinna. Þetta er auðvitað mál sem við viljum að komist sé til botns í. Og þetta sýnir okkur líka að opnunartími bráðamóttöku geðsviðsins er gjörsamlega óásættanlegur. Að fólki sé snúið við klukkan fimm á helgidegi, eitthvert annað, á verstu stundum ævi sinnar.“
Sjá má viðtalið við Önnu Gunnhildi í heild sinni í spilaranum hér að ofan.