Eldarnir í Amazon-regnskóginum hafa beint kastljósi að enn stærra og flóknara vandamáli, örlögum allra hitabeltisregnskóga jarðarinnar. Þetta segir Jón Geir Pétursson, umhverfis- og auðlindafræðingur. Eldar loga líka í hitabeltisskógum Afríku, og skógar Súmötru og Borneó brunnu fyrir skömmu. Eyðing skóganna er af mannavöldum, og veldur allt að 17% af árlegri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.
Stjórnvöld í Brasilíu hafa lagt sextíu daga bann við því að kveikja elda til að ryðja skóglendi, til að bregðast við skógareldunum í Amazon-frumskóginum. Jair Bolsonaro, forseti landsins, undirritaði tilskipunina. Hann hefur sætt harðri gagnrýni fyrir framgöngu sína vegna eldanna, og deilur hans við leiðtoga helstu iðnríkja heims um viðbrögð við ástandinu hafa vakið ótta um að stjórnvöld í Brasilíu taki ekki í taumana fyrr en skógurinn hefur orðið fyrir óbætanlegu tjóni, og þar með jörðin öll.
Jón Geir Pétursson er doktor í umhverfis- og auðlindastjórnun og sérfróður um skóga í hitabeltinu. Hann starfar sem skrifstofustjóri í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Jón Geir segir að mikilvægi Amazon-skógarins - og annarra regnskóga í hitabeltinu, verði seint ofmetið, bæði vegna þess að þeir eru heimili um helmings allra tegunda lífvera á jörðinni og uppspretta stórs hluta ferskvatns sem rennur til sjávar. Það er ekki rétt sem víða hefur komið fram, að Amazonskógurinn geymi 20% af súrefni á jörðinni, en hann hefur mikil áhrif á loftslag jarðar.
„Það hefur verið talið að svona 10, 15, stundum hærra upp í 17 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda á hverju ári komi frá eyðingu skóga. Þar skipti mestu eyðingin í hitabeltisregnskógunum," segir Jón Geir.
Flestir vilja nýta skóginn
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefur dvalið langdvölum í Brasilíu. Hann segir að almennt séu Brasilíumenn hlynntir skynsamlegri nýtingu Amazon-frumskógarins, Bolsonaro sé ekki eini leiðtoginn sem hafi viljað nýta hann.
„Forverar hans, Lula og Dilma Rousseff, voru bæði á þeirri skoðun að mætti ekki gera Amazon-skóginn að friðhelgum reiti, heldur ætti að nýta skóginn eins og hægt væri. Auðvitað að teknu tilliti til aðstæðna, indíánanna sem búa þarna, frumbyggja og þess háttar, og það er best að taka fram að þessir skógareldar eru alveg hræðilegir, og þarf að reyna að koma í veg fyrir þá," segir Hannes.
Margar lífseigar ranghugmyndir ríki um Amazon-skóginn, eins og sú um súrefnisframleiðsluna. Óraunhæft sé að skógurinn verði ekki nýttur, en það þurfi að gera með skynsamlegum hætti.
Roberto Mangabeira Unger, sem var ráðherra málefna Amazon-frumskógarins í ríkisstjórnum Lula og Dilmu Rousseff, benti nýlega á það í grein í New York Times að um 30 milljónir manna hefðu lifibrauð sitt af störfum á Amazon-svæðinu. Hann telur að besta lausnin sé að greiða úr óljósu eignarhaldi á landareignum í regnskógunum, og tryggja að þeir einir eigi landið sem nýti það með sjálfbærum hætti og varðveiti regnskóginn.
Regnskógapólitík
Auðlindastjórnun í skógunum er flókin og stórpólitísk. Jón Geir segir að kastljósið sem beinist nú að eldunum í Amazon veki athygli á enn stærra og flóknara vandamáli. Ekki séu nema 3-4 síðan miklir eldar geisuðu í hitabeltisregnskógum Suðausturasíu, einkum á Borneó og Súmötru, svo reykur byrgði sólu í stórborgum eins og Kuala Lumpur, Singapúr, Jakarta, rétt eins og nú í Sao Paolo í Brasilíu. Og enn geisa eldar í Indónesíu.
„Þetta eru ferlar sem hafa verið í gangi víðar í heiminum. Það hefur líka verið mikil umfjöllun um þá elda sem loga núna í Kongó, Gabon, Angóla, þessum hitabeltisregnskógasvæðum í Afríku," segir Jón Geir. „Og eldarnir eru auðvitað ekki náttúrulegt fyrirbæri í hinum blauta regnskógi. Þeir eru afurð þess að það er verið að ganga á þessa skóga, fyrst og fremst til að breyta þeim í landbúnaðarland."
Regnskógarnir eru risastór svæði, mörg í fátækum og minna þróuðum ríkjum.
„Við getum tekið sem dæmi hið stóra land Kongó í Mið-Afríku sem er eitt af fátækustu löndum heims," segir Jón Geir. „Þar er mjög mikill regnskógur og það eru afskaplega miklar líkur á því að gengið verði á þennan skóg í framtíðinni þegar efnahagsþróun fer af stað í landinu. En í landi eins og Brasilíu, þar sem efnahagsþróun er gengin miklu lengra, þar hefur nú þegar verið gengið heilmikið á skóginn."
Jón Geir tekur savannasvæðin sunnan Amazon-frumskógarins, Cerrado, og skóginn við Atlantshafsströndina sem dæmi um svæði sem hafa algerlega verið brotin undir landbúnað og byggðir. Brasilíumenn neyðist til að spyrja sig þeirrar krefjandi spurningar hversu langt þeir ætla að ganga í nýtingu skóga sinna.
Sameiginlegir hagsmunir að vinna saman
„Það hefur verið heilmikil umfjöllun um það í Brasilíu að það sé kannski ekki svo óskaplega ábatasamt fyrir þá að ganga á Amazon-skóginn vegna þess að sú úrkoma sem hann er valdur að, hún er svo mikilvæg fyrir þann landbúnað sem er kominn nú þegar."
Nú hefur Bolsonaro sakað leiðtoga G7-ríkjanna um heimsvaldastefnu fyrir að vilja skipta sér af innanríkismálum í Brasilíu. Við þekkjum þessa umræðu dálítið sjálf hér á Íslandi í sambandi hvalveiðarnar. Við erum ekkert hrifin af því að útlendingar skipti sér af því hvað við veiðum og hvernig við nýtum auðlindir okkar. Er ekki skiljanlegt að þjóðir vilji hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir sínum auðlindum?
„Jú, þegar við fjöllum um umhverfi og auðlindir í heiminum, þá tekst á sú grundvallarstoð sem heimsskipanin byggir á, sem er sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Brasilíumenn geta ekki komið hingað og farið að veiða fisk í íslenskri landhelgi. Þetta er ein vídd í þessari umræðu. Hin víddin er svo aftur að svo mörg svona mál snerta heimsbyggðina alla. Það er ekki einkamál Brasilíumanna ef þeir eyða Amazon-frumskóginum. Það verður kannski verst fyrir þá sjálfa, en það hefur áhrif á heiminn allan. Þess vegna eigum við þessa alþjóðasamninga um umhverfismál, eins og til dæmis Parísarsamkomulagið, sem er auðvitað að leita leiða til að finna þetta erfiða jafnvægi milli sjálfsákvörðunarréttar þjóðar og síðan þessara sameiginlegu hagsmuni heimsbyggðarinnar allrar. Og það eru ekkert auðveld mál sem liggja þar undir og um það snúast auðvitað þessi mál í grunninn."
Og þá kannski sérstaklega þegar flokkar eða fólk kemst til valda sem lætur sig ekki hagsmuni heimsbyggðarinnar varða?
„Já, það er ansi vond niðurstaða, þegar búið er að draga fram að það eru hagsmunir heimsbyggðarinnar allrar að unnið sé að hlutunum sameiginlega."