Í Venesúela, sem eitt sinn var ríkasta land Suður-Ameríku, eru tvenns konar kreppur - eða krísur. Annars vegar alvarleg fjármálakrísa sem hefur valdið gríðarlegri fátækt, hungursneyð og fólksflutningum síðustu árin, og má rekja aftur til stjórnartíðar Hugo Chavez, sem féll frá 2013. Hins vegar, er það stjórnarkrísa, eða kannski frekar, forsetakrísa. Landið hefur nefnilega ekki einn forseta, heldur tvo. Og að sjálfsögðu, eru þessar tvær krísur nátengdar.
Maduro sver embættiseið - aftur
Þetta byrjaði allt í húsi hæstaréttar Venesúela í höfuðborginni Caracas, þann tíunda janúar á þessu ári. Nicolas Maduro, sem hefur gengt embætti forseta landsins frá 2013, sver þá embættiseið - í annað sinn.
„Ég sver við fólkið í Venesúela, ég sver við arfleið forfeðra okkar," sagði Maduro meðal annars. „Ég sver við arfleifð okkar elskaða foringja, Hugó Chavez..." og svo framvegis. Nicolas Maduro lofar öllu fögru. Hann er rétti maðurinn til að leiða þjóð sína áfram veginn í þeirri erfiðu baráttu sem fram undan er.
En þótt forsetinn hafi svarið embættiseið í annað sinn snemma í janúar, er Nicolas Maduro hreint ekki óumdeildur. Það er aldrei góðs viti að athöfn sem þessi fari fram innandyra, en ekki utandyra eins og venja er.
Maduro hafði vissulega borið sigur úr býtum í forsetakosninunum í landinu í maí í fyrra, en kosningarnar þóttu þó í meira lagi vafasamar. Meirihluti stjórnarandstæðinga sniðgekk kosningarnar, enda hafði mörgum andstæðingum forsetans verið stungið í steininn eða neyðst til að flýja land af ótta við að vera fangelsaðir. Stjórnarandstöðuflokkar höfðu því sammælst um að best væri að sniðganga kosningarnar, þar sem þær væru hvorki frjálsar né sanngjarnar. Löggjafaþingið í Venesúela, Asamblea Nacional, viðurkenndi meira að segja ekki kosningarnar, en þar fara andstæðingar Madúrós með meirihluta.
Öruggur „sigur" Maduro upphaf forsetakrísunnar
En hvað sem því líður þá fór Maduro með sigur af hólmi og fékk hvorki meira né minna en 67,8 prósent atkvæða. Flest nágrannaríkja Venesúela, Argentína, Síle, Kólumbía og Brasilía, sögðu sigur Maduro ekki marktækan. Hið sama má segja um Bandaríkin, Kanada og sjálft Evrópusambandið.
Í kjölfarið á þessari athöfn í hæstarétti, þann tíunda janúar - má segja að hjólin hafi farið að snúast í Venesúela. Í það minnsta enn hraðar en áður, og sú atburðarás sem hefur einkennt umræðuna um Venesúela á þessu ári var formlega hafin.
Juan Guaido stígur fram
Aðeins fáeinum mínútum eftir að Maduro sór eiðinn gaf fastanefnd Samtaka Ameríkuríkja, alþjóðasamtaka þrjátíu og fimm Ameríkuríkja, það út að boða ætti til nýrra kosninga í landinu, Maduro hefði ekki endurnýjað umboð sitt á lýðræðislegan hátt. Löggjafaþingið í Venesúela var á sama máli, en nýkjörinn forseti þess var hinn þrjátíu og fimm ára gamli Juan Guaido, leiðtogi Voluntad Popular, flokks framsækinna sósíaldemókrata.
Og þann 23. janúar, einungis þrettán dögum eftir að Maduro var aftur settur í embætti, lýsti Guaido því yfir að hann væri réttmætur forseti Venesúela. Hvernig, jú auðvitað með því að sverja eið - eins og menn gera.
„Ég heiti því," sagði Juan Guaido, „að taka mér völdin í landinu sem tímabundinn forseti, til að tryggja endalok óstjórnar og svikular ríkisstjórnar, og sjá til þess að í landinu verði frjálsar kosningar. Megi Guð launa okkur," sagði hann enn fremur. Og þess óskaði fólkið, fólkið sem var komið með nóg af Maduro, fólkið sem vildi breytingar og sá þær í hinum unga og glæsilega Juan Guaido.
Aðeins forseti til bráðabirgða
Hluta af vinsældum Guaidos má rekja til þess að hann er ekki erkitýpa þess sem gerir hallarbyltingu. Hann kveðst aðeins vera forseti landsins til bráðabirgða. Stjórnarskrá landsins kveður á um að forseti löggjafaþingsins - í þessu tilfelli, Juan Guaido - sitji sem forseti þar til kosningar eru haldnar, liggi grunur um að kosningar hafi farið fram með ólögmætum hætti.
Og viðbrögð alþjóðasamfélagsins létu ekki á sér standa eftir að Guaido sór eiðinn.
Trump styður Guaido
Donald Trump Bandaríkjaforseti var ekki lengi að lýsa yfir stuðningi við Guaido, en lengi hefur andað köldu milli ráðamanna í Venesúela og Bandaríkjastjórnar. Mörgum er enn ferskt í minni þegar Hugó Chavez, fyrirrennari Madúrós á forsetastóli, signdi sig í pontu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York árið 2006, degi eftir að George Bush þáverandi Bandaríkiforseti hafði staðið í sömu pontu.
„Djöfullinn var hér í gær, og hér lyktar enn allt af brennisteini," sagði Hugo Chavez og signdi sig.
En fleiri ríki fylgdu í kjölfar stuðningsyfirlýsingar Bandaríkjanna á Juan Guaido. Yfir fimmtíu lönd hafa líst yfir stuðningi við hann; Kanada, flest ríki í vesturhluta Evrópu, og líka litla Ísland! Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sló meira að segja á þráðinn til Guaidos í febrúar og greindi honum frá stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Evrópuríkin höfðu þó gefið Maduro nokkura daga frest til að boða til kosninga, sem hann varð ekki við.
Maduro á sína stuðningsmenn
En Maduro og hans fólk eru ekki eyland. Rússar og Kínverjar hafa staðið með Maduro og viðurkenna ekki Guaido sem forseta, líkt og fjöldi annarra þjóða. Innan alþjóðasamfélagsins eru nefnilega skiptar skoðanir á því að lýsa yfir stuðningi við forseta, sem gerir byltingu með þessum hætti gegn sitjandi forseta, sem vann kosningar með lýðræðislegum hætti. Að minnsta kosti á pappírum.
Í Venesúela er því flókin staða, þar sem Maduro nýtur einnig stuðnings í heimalandinu. Landið er tvískipt og þótt Guaido njóti stuðnings hvaðanæva að úr heiminum, er ekki þar með sagt að hann sé valdamikill heimafyrir, enda er Maduro enn forseti og sem slíkur getur hann ákveðið að virða að vettugi þær ákvarðanir sem venesúelska löggjafaþingið, hvar Guaido hefur setið sem forseti, tekur.
Maduro er einnig yfirmaður hersins. Hingað til hefur herinn verið hliðhollur Maduro, sem hefur launað hermönnum og ráðamönnum hollustuna með vænlegum kauphækkunum, ásamt því að koma þeim fyrir í lykilstöðum í ríkisfyrirtækjum. Það vill oft verða svo að í deilum sem þessum að sá sem veldur byssunni, hann ræður.
Guaido skorar á herinn að ganga til liðs við sig
En það veit Juan Guaido líka og þann þrítugasta apríl dró til tíðinda. Þá britir Guaido myndskeið á samfélagsmiðlinum Twitter, þar sem hann, umkringdur hermönnum, hvetur þá hermenn sem enn séu hliðhollir Maduro til að gerast liðhlaupar, eða með öðrum orðum, ganga til liðs við sig.
Guadio skorar á alla hermenn og starfsmenn hersins, alla sanna föðurlandsvini, til að virða stjórnarskrá landsins. Hann njóti þegar stuðnings hersins og nú sé upphafið að því að hann komist að fullu til valda.
En það er ekki að segja að Guaido hafi tekist ætlunarverk sitt. Varnarmálaráðherra landsins, Vladimir Padrino, er hliðhollur Maduro og tók strax af allan vafa um það hvort að herinn færi að snúast á sveif með Guaido. Herinn heyrði enn undir réttkjörinn forseta.
Fundarhöld og refsiaðgerðir
Síðan þá hafa fulltrúar ríkisstjórnar Maduro og fulltrúar Guaidos fundað, - af öllum stöðum í Noregi og á Barbadós eyjum - en án árangurs. Þann sjöunda ágúst sleit Maduro viðræðum við fulltrúa Guaidos, nokkrum dögum eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum höfðu hert enn frekar á refsiaðgerðum gegn Venesúela.
Meðal annars hafa allar eignir Venesúela í Bandaríkjunum verið frystar og blátt bann lagt við öllum viðskiptum við yfirvöld í landinu og fulltrúa þeirra. Refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Venesúela eru þær hörðustu sem vestrænt ríki hefur verið beitt í meira en þrjá áratugi og eru á pari við þær sem Norður-Kórea, Íran, Sýrland og Kúba hafa þurft að þola.
Maduro lýsti aðgerðum Bandaríkjastjórnar sem alvarlegum og grimmilegum yfirgangi Trumps forseta og dró sig því úr fyrrnefndum viðræðum við Guaido og hans fólk.
Venesúela hafi aldrei betur í þessari baráttu og landið haldi áfram að berjast gegn því óréttlæti sem það sé beitt af hálfu alþjóðasamfélagsins, sagði Maduro í kjölfar refisaðgerða Bandaríkjanna. Bandaríkin muni aldrei bera sigur úr býtum gegn Venesúela. Hvorki Donald Trump né John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, geti tekið landið úr höndum heimamanna.
Hungursneyð, óðaverðbóla og fólksflutningar
En þá að hinni krísunni, þeirri sem er jú aðalástæðan fyrir því að í Venesúela eru tveir forsetar.
Allt frá dögum forsetatíðar hins skrautlega Hugó Chavez, sem varð forseti 1999, hefur hallað jafnt og þétt undan fæti í Venesúela, landinu sem var eitt sinn það auðugasta í Suður-Ameríku, enda ríkt af olíuauðlindum. Þegar Chavez tók við embætti hafði ójöfnuður í landinu aukist mikið, hinir ríkari orðið ríkari og hinir fátækari fátækari. Chavez lofaði öllu fögru og sór þess eið að berjast gegn spillingu og fátækt. En dómur sögunnar er sá að Chavez gekk of langt og þær aðferðir sem hann beitti til þess að auka jöfnuð þegna sinna, voru skot yfir markið.
Með því að koma á auknu verðlagseftirliti í landinu vildi Chavez gera fátækum kleift að versla nauðsynjavörur á viðráðanlegu verði og setti þak á vörur eins og hveiti, matarolíu og klósettvörur. Þetta kom sér illa fyrir þau fyrirtæki sem framleiddu vörurnar og fóru þau fljótlega á hausinn. Þá kom Chavez einnig á fót gjaldeyrishöftum sem urðu þess valdandi að svört verslun með Bandaríkjadollara blómstraði og íbúar Venesúela kepptust við að skipta bólívarnum, gjaldmiðli landsins, yfir í dollara.
Fjölmargar aðrar ástæður mætti nefna í þessu samhengi og ljóst að þegar Nicolas Maduro tók við embætti árið 2013, tók hann við erfiðu búi. Árið 2014 var 800% verðbólga í landinu.
Madúró brást við því með því að prenta peninga, sem kann víst aldrei góðri lukku að stýra. Það jók verðbólguna í landinu enn frekar. Maduro jók þá verðlagseftirlit með svipuðum afleiðingum og hjá fyrirrennara sínum, vöruskortur varð í landinu og innflutningsvörur óviðráðanlega dýrar. Fyrirtæki urðu gjaldþrota og matur og lyf af skornum skammti.
Versta kreppa ríkis síðan í síðari heimsstyrjöld
Kreppan í Venesúela, sem stundum er sögð hafa hafist í júní 2010 þegar Hugo Chaves lýsti yfir efnahagslegu stríði í kjöfar vöruskorts í landinu - er langversta efnahagskreppan í sögu landsins, og sú versta sem nokkurt ríki sem er ekki í stríði hefur þurft að þola síðan um miðja tuttugustu öld. Óðaverðbólga, hungursneyð, útbreiðsla sjúkdóma, aukin glæpatíðni - þetta eru fylgifiskarnir - auk gríðarlegs fólksfjölda frá landinu en yfir þrjár milljónir hafa flúið landið á síðustu árum.
Kreppan hefur því alvarlegar afleiðingar á daglegt líf íbúa í landinu. Árið 2017 hafði meira en helmningur landsmanna ekki nægilegar tekjur til að mæta matarþörf sinni. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá því mars, eru 94% íbúa landsins undir fátæktarmörkum og tuttugu og fimm prósent íbúa þiggja einhvers konar mannúðaraðstoð.
Óvíst um framhaldið
Nicolas Maduro lýsti því yfir um miðjan ágúst að hann væri reiðubúinn að hitta Guaido og hans fólk á ný. Setjast niður og ræða málin, eins og fólk gerir þegar það er ósammála. Þær viðræður hafa þó ekki hafist enn. Juan Guaido heldur sinni stefnu til streitu, það verður að kjósa og það á opinn og gagnsæjan hátt. Engin þörf sé á viðræðum, ef Maduro og hans fólk vill ekki kosningar.
Eitt er þó víst, að á meðan ekki fæst niðurstaða í forsetakrísunni í Venesúela, er borin von að sú krísa sem hefur dregið landsmenn til dauða, valdið hunugursneyð og fólksflótta frá landinu, muni lagast.